miðvikudagur, desember 06, 2006

6. desember 2006 – Ekki stóð sælan lengi

Í fréttum á þriðjudagskvöldið kom Jón Rögnvaldsson vegamálastjóri og hélt því fram að nóg væri að gera svokallaðan tveir+einn veg austur að Selfossi og með dósaskera á milli akbrauta. Þar sem hann telst vera undirmaður samgönguráðherrans, er ég ekki í nokkrum vafa um að þessi framsetning hans er sett fram að undirlagi Sturla Böðvarssonar sem aldrei hefur ætlað sér að efna orð sín um tvöföldun Suðurlandsvegar. Með útreikningum sínum og gröfum sýndi hann svo ekki verður um villst, að tvöfaldur Suðurlandsvegur verður ekkert öruggari en fyrri tillaga hans með dósaskerann. Sjálf dundaði ég mér við að gera annað svona graf og sannfærðist um að eina lausnin er tvöfaldur vegurinn því hver sem er getur gert slíkt graf ef engar staðreyndir liggja á bakvið. Það er hinsvegar ljóst að alvarlegum slysum á Reykjanesbraut á milli Hafnarfjarðar og Keflavíkur hefur stórfækkað með því að hluti vegarins var gerður tvöfaldur.

Það skiptir kannski litlu máli hvað ég eða almenningur í þessu landi krefst. Lestarstjórarnir eru risnir upp á afturlappirnar með Jón Rögnvaldsson í broddi fylkingar og sjá ekkert athugavert við tillögur hans og vilja jafnvel lækka umferðarhraðann enn frekar. Það er svo aftur umhugsunarefni hversu mjög fólk forðast að aka Suðurlandsveginn til Selfoss. Sjálf hefi ég átt erindi þangað í allt haust, en hefi ekki nennt að sitja í langri og hægfara bílalest á leiðinni og sleppi því frekar að fara austur þar til ég verð búin að safna svo mörgum erindum í eina ferð að ég geti eytt degi í að fara austur, ljúka erindum mínum og aka heim aftur. Þarna klikkar Rögnvaldsson þegar hann talar um umferðarþunga. Hann gerir ekki ráð fyrir hinni auknu umferð sem skapast af betra vegakerfi. Við þurfum ekki annað en að skoða þá miklu breytingu á lífsháttum Vestlendinga sem áttu sér stað með tilkomu Hvalfjarðarganga.

Af einhverjum ástæðum fóru afgamlar Zoëgabeygjur um huga minn. Geir G. Zoëga var vegamálastjóri á árunum 1917 – 1956 og á meðal vegaframkvæmda sem gerðar voru að hans undirlagi voru svonefndar Zoëgabeygjur, en í þeim tilgangi að draga úr umferðarhraða við brýr, voru jafnan hafðar beygjur að brúnum. Frægastar þeirra voru beygjurnar í ofanverðum Borgarfirði. Mest umtöluð var brú yfir Gljúfurá í Stafholtstungum sem var aflögð fyrir aðra nýrri haustið 1962. Hún var þó byggð fyrir tíð Zoëga vegamálastjóra. Í grein eftir Baldur Þór Þorvaldsson verkfræðing og brúahönnuð í Framkvæmdafréttum Vegagerðarinnar bls 9, sést gjörla hverskonar manndrápsmannvirki var á þessum stað, en auðvelt var fyrir ókunnuga að villast á vegmerkingum og aka beint út í ána í stað þess að taka fjórar beygjur að og frá brúnni. Ef mig misminnir ekki, var lokaatriði kvikmyndarinnar 79 af Stöðinni tekið á þessum stað, en slæmt slys var þarna árið 1946 er áætlunarbifreið valt þarna og fimmtán manns slösuðust. Þá fórst hópur breskra hermanna er bifreið þeirra lenti ofan í ánni á stríðsárunum. Sjálf man ég vel eftir nokkrum brúm í ofanverðum Borgarfirði sem voru lítt betri, en aflagðar í lok áttunda áratugs tuttugustu aldar.


0 ummæli:Skrifa ummæli