föstudagur, desember 29, 2006

29. desember 2006 – Þægur samstarfsflokkur

Í viðtali sem Arna Schram blaðamaður átti við Davíð Oddsson fyrir Nordisk tidskrift, sá Davíð ástæðu til að hnippa í fyrrum samstarfsflokk sinn í ríkisstjórn, Alþýðuflokkinn sáluga og kvartaði yfir endalausum leka úr ríkisstjórninni á meðan þeir voru saman í sæng á árunum 1991-1995, eða eins og Davíð segir í viðtalinu: „Þetta var að mörgu leyti skemmtilegur tími, en þessi ólga alltaf innan þessa litla flokks, og endalausar deilur og reyndar endalaus leki út úr ríkisstjórninni, sem hvarf eins og dögg fyrir sólu er þeir fóru út úr ríkisstjórninni.”Ekki versnaði ástandið þegar íhaldið fór í hjónaband með Framsóknarmaddömunni. Eftir það hefur slefan ekki slitnað á milli þeirra og hefur Framsóknarflokkurinin gert allt sem Sjálfstæðisflokkurinn hefur beðið hann um, jafnvel farið í stríð fyrir hönd Davíðs og ekki sagt orð til að spilla ekki "samstarfinu". Það er nú ekki lekinn þegar tryggja þarf flokksbundnum Framsóknarmönnum valdastöður. Ætli sama staða sé uppi í borgarstjórn?

-----oOo-----

Í þýsku bílaborginni Stuttgart munu eigendur gamalla bíla ekki fá náðuga daga eftir 1. júlí 2007, en þá taka nýjar reglur gildi sem hamla verulega notkun eldri bifreiða. Nýju reglurnar ganga út á að bílar fá merki í bílrúðurnar þar sem heimild er gefin til aksturs innan borgarmarka og þá eftir tegund þeirra. Gamlir díeselbílar, bílar án hvarfakúta eða þá með hvarfakúta frá því fyrir 1992 fá engan slíkan miða í framrúðuna og verða því gerðir brottrækir úr borginni. Samkvæmt Dagens nyheter mun sjöundi hver bíll í Þýskalandi lenda í banni með þessari nýju reglugerð.

Allt er þetta gott og blessað, en hvernig myndi þetta virka í Noregi sem er með bílaflota sem er verulega eldri en gengur og gerist í mörgum löndum Evrópu?

-----oOo-----

Síðustu dagana hafa tilkynningar frá ÁTVR dunið á landslýð þess efnis að vínbúðir verði opnar á laugardaginn klukkan 11.00 til 18.00. Þetta eru góð tíðindi. Þessi dagur, 30. desember, hefur löngum þótt vera einn söluhæsti dagur ársins í Ríkinu hafi hann borið upp á virkan dag. Það eru því gleðitíðindi að stjórn fyrirtækisins skuli vilja viðhalda þessari góðu hefð mér til heiðurs ;)


0 ummæli:







Skrifa ummæli