laugardagur, desember 09, 2006

9. desember 2006 - Lífeyrisgreiðslur

Fyrir nokkrum árum síðan byrjaði eitthvert merkilegt æði í þjóðfélaginu. Allt í einu byrjaði þjóðin að spara í svokölluðum séreignarsjóðum. Með því að greiðslur sem námu 0.2 % af heildartekjum lögðust við 2% sem var framlag einstaklingsins og skattgreiðslum frestað af þessum aurum þar til við úttekt, myndaðist ákveðinn stofn sem átti að vera góður að grípa til þegar á þyrfti að halda í ellinni.

Kona ein hlýddi þessum góðu ráðum sem jakkafataklæddir ungir menn ráðlögðu henni og lagði fyrir í séreignarsparnað. Þegar hún var hætt að vinna og taldi sig þurfa á peningum að halda og ætlaði að taka út þessar 400.000 krónur sem hún átti inni, reyndust þær aðeins vera 9.000 krónur vegna tekjutengingarákvæða.

Ég skrifaði heilmikla drápu um þennan lífeyrissparnað um daginn, en birti ekki strax. Síðan það var, hefur verið ákveðið að gera nokkrar breytingar á séreignarlífeyri svo að þau mistök sem gerð voru, muni ekki endurtaka sig.

Ég er í hópi þess fólks sem lagði fyrir á þennan hátt og á nú rúmlega hálfa aðra milljón í séreignarsparnaði. Þrátt fyrir þessar nýju reglur sem á að setja, sýnist mér sem að það borgi sig fyrir mig að taka út allan lífeyrissparnaðinn um leið og ég næ sextugu og leggja inn á venjulegan bankareikning.

Eftir allt saman virðist sem lífeyristryggingin mín sem ég keypti hjá ónefndum tryggingasala og sem ég taldi mig stórtapa á í upphafi, sé sú eina sem ætlar að skila raunverulegum sparnaði til framtíðar.

Það er svo önnur saga að það var haldið kaffiboð fyrir eftirlaunafólk Orkuveitunnar á fimmtudag og öll bílastæðin fylltust af flottum jeppum.

-----oOo-----

Maggi mágur fær svo hjartanlega afmæliskveðjur með 62 ára afmælið. Karlkvölin þarf að fara til Jótlands um jólin ásamt systur minni að mála nýja húsið sem þau voru að kaupa og ætla að búa í á elliárunum. Þó kunna þau, held ég, ekki orð í dönsku. Flott hjá þeim.

-----oOo-----

Ekki mun fuglasöngur heyrast um himinhvolfin þessa helgina eins og áætlað var, en Christer Fuglasöngur (Fuglesang) frá Svíþjóð er á leið í sína fyrstu geimferð. Henni var frestað vegna veðurs.


0 ummæli:Skrifa ummæli