sunnudagur, desember 31, 2006

31. desember 2006 – Samantekt ársins 2006.

Það hefur löngum þótt góður siður á tímamótum að horfa um öxl og hugsa til þess ársins sem var að líða og endurnýja gömul heit, en eins og öllum ætti að vera kunnugt á þessari stundu, fara áramót og afmæli nánast saman svo einungis skakkar einum degi. Því slæ þessum tveimur stórviðburðum saman í einn og rifja hér með upp árið sem er að líða áður en kemur að völvuspánni fyrir árið 2007.

Árið 2006 hófst með því að ég gaf mér það áramótaheit að ná af mér tíu kílóum af spiki á árinu og því hóf ég að rölta Elliðaárdalinn í hægðum mínum, þó ekki bókstaflega, þegar í byrjun janúar. Eftir að hafa rölt um dalinn um skeið án teljandi árangurs fór mér að leiðast þófið, því engin hurfu kílóin. Fékk ég þó dygga aðstoð við göngurnar með því að Guðrún Helga veitti mér gjarnan aðstoð við labbið og var undirlendi allt á Stór-Kjalarnessvæðinu reiknað til gönguferða.

Einhverju sinni er við vorum á göngu suður í Hafnarfirði, benti Guðrún mér á hátt fjall og mæltist til að við klifum fjallið. Eftir mikið klifur og erfiðleika, svita og tár, tókst okkur loks að ná hæsta tindi þessa mikla fjalls, Ásfjallsins í Hafnarfirði sem er hvorki meira né minna en 127 metrar á hæð. Eftir það var ekki aftur snúið, samin ný gönguáætlun hinna tólf tinda og byrjað að ganga hóla og hæðir og stóð það yfir allt sumarið, Esjan tvisvar, tvö Helgafell, þar af annað þeirra tvisvar, Vífilsfell, Grímannsfell, Hengill, Keilir, Fanntófell, Strútur, Skálafell, Þorbjörn og fleiri fjöll. Þá má ekki gleyma leitinni að Eyktarási, en með hjálp Þórðar sjóara tókst að finna hann í ágústmánuði. Smám saman runnu af mér þessi tíu kíló sem ég hafði sett á áætlun og var ég rétt að verða komin á áætlun er síðasta tindi var náð. Síðan hefi ég ekki hreyft mig nema til að ganga í vinnuna og búin að bæta á mig þessum tíu kílóum að nýju.

Það var eitthvað um fjölgun í stórfjölskyldunni á árinu, en ekkert í nánasta umhverfi. Það urðu fjórar jarðarfarir á árinu þar af einn móðurbróðir kominn yfir áttrætt og er hans sárt saknað. Að auki skrópaði ég í tveimur jarðarförum.

Ég fór í þrjár utanlandsferðir á árinu, allt samkvæmt þeirri áætlun sem samin var um síðustu áramót, hin fyrsta í mars til Genfar í Sviss með viðkomu í Danmörku og Svíþjóð, þá til Mannshestahrepps og Halifaxhrepps í Englandi í byrjun júlí og loks til Ítalíu með viðkomu í Englandi í nóvember. Þá tók ég þátt í hópferð til Kárahnjúka í september og var hún fremur misheppnuð. Næst fer ég á eigin vegum. Þá varð ekkert úr ætlaðri ferð minni til Selfoss á árinu 2006, en nokkrar ferðir upp á Hellisheiði og til Borgarness. Mesta menningarsjokkið sem ég varð fyrir á árinu var þegar við sátum á fundi í Genf og Rosanna vinkona mín frá Ítalíu fór að kvarta yfir hlýindunum í Sviss.
Ha, hlýindum? Ekki fannst mér neitt hlýtt, enda nýkomin frá útsynningi og rigningu á Íslandi, annað en Rosanna sem hafði eytt öllum vetrinum í kulda og trekk suður á Ítalíu.

Þá átti ég í eilífðarbasli í fjármálum, tókst ekki að skipta um fataskápa eins og ætlað var, en eyddi stórfé í að skipta um þak. Spurningin er nú hvaða utanhússframkvæmdir koma í veg fyrir að ég skipti um fataskápa á árinu 2007.

Ég var ekki rekin úr stjórn Ættfræðifélagsins á árinu, en það hlýtur að bresta á mjög fljótlega, enda er ég alltof ung fyrir slíkan félagsskap. Það er þá eitthvað annað í stjórn TGEU, en aldur kom til tals á einum stjórnarfundinum. Kom þá í ljós að ég var elst í stjórninni, þó einungis árinu eldri en Jane Thomas og rúmum þremur árum eldri en Stephen Whittle , en hann má einnig sjá hér.


Flest það í ytri málefnum sem ég spáði í gegnum mína fínu kristalskúlu stóðst á árinu, það var skipt um borgarstjóra, heimsmethafinn geðþekki hætti í góðakstri og ríkisstjórnin situr enn flestum til ama og leiðinda. Eitt brást þó, en ég hafði spáð því að Halifaxhreppur myndi komast upp um deild á árinu, en eins og öllum ætti að vera kunnugt, töpuðu hetjurnar í framlengingu í leik um sæti um langneðstu deild.

Samkvæmt ofansögðu gekk allt sinn vanagang á árinu 2006 og er ekki ástæða til að ætla stærri breytingar á nýju ári.


0 ummæli:Skrifa ummæli