þriðjudagur, desember 05, 2006

5. desember 2006 – Það var eins og blessuð skepnan skildi

Í gær flutti ég hinn hatrammasta áróður gegn Sturla Böðvarssyni samgönguráðherra, en vart hafði ég sent þetta út á netið,er blessaður drengurinn dró í land svo eftir var tekið og benti á að hægt væri að tvöfalda Suðurlandsveg til Selfoss og Vesturlandsveg að Hvalfjarðargöngum á næstu fjórum árum. Þegar haft er í huga að Vegagerðin hefur ekki heyrt af þessari nýju framkvæmdagleði samgönguráðherrans, verður spurningin sú hvort hann telji ekki nóg að hægt sé að tvöfalda umrædda vegi. Þannig verður hægt að nota þetta sem kosningaloforð við tvennar Alþingiskosningar.

Annað klúður samgönguráðherrans var í kvöldfréttum útvarpsins. Það var þrenging vikmarka við hraðakstur. Með því að þrengja vikmörkin niður í 5 km/h í stað 10km/h staðfesti þessi sami samgönguráðherra að honum væri skítsama um ofsaakstur, heldur væri tilgangurinn sá eini að auka tekjur Lögreglukórsins með fjölgun sekta þeirra sem telja sig aka á löglegum hraða eins og ég benti reyndar á fyrir nokkru hér á blogginu. Nú hefur Guðlaugur Jónasson rafmagnsverkfræðingur og sérfræðingur í mælitækni bæst í hóp þeirra sem mótmæla þessari þrengingu vikmarka. Sjálf mun ég ekki hika við að mótmæla kröfunni og senda í dóm, verði ég uppvís að því að aka rétt yfir hámarkshraða.

Sjálf held ég að einu Hólmararnir sem ekki munu óska þess að Sturla Böðvarsson verði sendur heim til föðurhúsanna vestur í Ólafsvík, séu bílhræddur faðir minn heitinn og Árni fyrrum símstöðvarstjóri.

-----oOo-----

Ég þurfti að skreppa með uppáhaldsvetrarstígvélin mín, þessi sem kennd eru við Pertti og voru fundin upp í Vetrarstríðinu forðum daga, í hressingu í gær og notaði tækifærið og bauð Hrafnhildi ofurkisu að fara út í garð á meðan ég væri í burtu. Þegar ég kom heim aftur var hún hvergi sjáanleg. Vinkona hennar í þarnæsta stigagangi var hinsvegar á vappi úti í garði og datt mér helst til hugar að Hrafnhildur væri að gæta kettlinganna á meðan.

Svo leið kvöldið og hvergi sást Hrafnhildur. Ég fór að hafa áhyggjur. Þegar klukkan var farin að ganga ellefu um kvöldið tók ég mig til og fór að hlusta öll skúmaskot í nágrenninu og heyrði þá ámáttlegt mjálm úr læstri hjólageymslunni í næsta stigagangi. Ég fékk einn nágrannann til að opna hjólageymsluna fyrir mig og sleppa Hrafnhildi úr prísundinni og hún reigði sig og strunsaði í burtu uppfull fyrirlitningar á björgunarfólki sínu. Núna harðneitar hún að leggjast hjá mér og dást að bloggfærslu minni eins og hún gerir venjulega.


0 ummæli:Skrifa ummæli