sunnudagur, október 12, 2008

12. október 2008 - Slúðursögur!

„Er það satt að þú sért komin með nýja kærustu?“ spurði góð vinkona mín í fyrradag sem ég hafði ekki heyrt í um nokkurt skeið. Ég neitaði því og bætti því við að ég hefði ekki verið með neina kærustu í mörg ár og væri ekkert á leiðinni að finna mér neina. Á mínum aldri fengi fólk sér fremur rúgbrauð með kæfu á kvöldin, en að standa í einhverjum stórræðum þegar kæmi að svefntímanum.

Mér finnst dálítið merkilegt hve fólk hefur mikinn áhuga fyrir kynhegðun og kynhneigð minni, reyndar miklu meiri áhuga en ég hefi sjálf. Ég hefi oft fengið þessa spurningar í opinberum viðtölum og gjarnan svarað út í hött, kannski með þeim afleiðingum að orð mín hafa verið túlkuð á ýmsa vegu, allt frá því að vera trukkalessa til þess að vera heterósexual og allt þar á milli. Þá mætti ætla af spurningunum að ég hefði aflað mér fjörlegrar reynslu í rúminu í gegnum árin, bæði með körlum og konum og þá sjálf verið í báðum hlutverkum.

Best að taka það fram hér og nú að reynsla mín af bólförum er ekkert meiri en meðaljónsins og meðalgunnunnar í samfélaginu. Þótt ég hafi vissulega prófað eitt og annað hefi ég alls ekki stundað neitt ofurkynlíf og rekkjunautarnir verið síst fleiri en hjá fjölda annarra Íslendinga.

Ég er vissulega meðlimur í Samtökunum 78 og styð kvennahóp Samtakanna heilshugar enda fékk ég fyrstu viðurkenningu mína á Íslandi frá þeim góða hóp og það árum áður en ég hélt til Svíþjóðar í von um að komast í aðgerðarferli til leiðréttingar á kyni. Um leið kemur engum það við hvernig ég lifi mínu kynlífi og hver kynhneigð mín er. Það eru mörg ár síðan ég kom út úr skápnum sem transgender og það á að nægja hnýsni íslensku þjóðarinnar. Kynhneigð mín er svo mitt einkamál og kemur engum við nema sjálfri mér og þeim sem ég stunda kynlíf með.

Um leið kitlar það athyglissýkina að heyra ósannar en magnaðar lýsingar af kynhegðun minni.


0 ummæli:







Skrifa ummæli