laugardagur, október 18, 2008

18. október 2008 - Hart í bak.

Á föstudagskvöldið gerðist ég snobbhænsni, fékk einn vinnufélaga minn til að taka vaktina mína og fór í leikhús. Það kom ekki til af góðu. Ég hefi aldrei gleymt því umtali sem Hart í bak eftir Jökul Jakobsson vakti á árunum eftir 1962 er það var sýnt í Iðnó og Brynjólfur Jóhannesson lék aðalhlutverkið. Ekki tókst að vekja Brynjólf heitinn upp til að endurtaka glæsilegan leiksigur og því þurfti Gunnar Eyjólfsson að taka upp þráðinn frá 1962 og leika skipstjórann á Goðafossi og tókst það með ágætum.

Sjálf hafnaði ég á góðum stað í leikhúsinu með boðsmiða í höndum og viðraði mig innan um elítu landsins um stund áður en haldið var, eftir góða leiksýningu, á Café Rosenberg og síðan á Næstabar.

Við sem fórum saman í leikhúsið hittum sænska stúlku og íslenskan mann hennar á Café Rosenberg. Hún ætlaði að segja eitthvert leyndarmál við vinkonu mína sem bauð okkur á sænsku, en áttaði allt í einu að eyrun sem skildu sænsku voru öllu fleiri en hún átti von á. Reyndar allur hópurinn.

Á Næstabar hitti ég gamla skólasystur og fagnaði henni ógurlega. Það var ekki nema von því mig hafði vantað netfangið hennar vegna samkvæmis í næsta mánuði. Þegar hún hafði skrifað netfangið sitt fyrir mig, áttaði ég mig á því að ég hafði farið kvennavillt. Sú sem ég hitti á Næstabar var vissulega gömul skólasystir frá öldungadeild MH, en alls ekki sú sem ég hafði leitað að, heldur fræg dagskrárgerðarkona á sjónvarpsstöð sem hafði verið á sömu frumsýningu og ég.

Hún veit allavega nú að hún er velkomin í samkvæmið okkar 14. nóvember.


0 ummæli:







Skrifa ummæli