þriðjudagur, október 14, 2008

14. október 2008 – Hvað er hlaupið í þessa aumu þjóð?

Nú eftir að nýfrjálshyggjan hefur beðið skipbrot með skelfilegum afleiðingum fyrir íslenskt samfélag er eins og að allur drifkraftur sé dreginn úr hinni íslensku þjóð. Allar bjargir eru bannaðar, sjávarútvegsráðherrann telur óábyrgt að auka kvótann og umhverfisráðherrann leggst gegn því að svifaseinu heildarumhverfismati verði flýtt. Forsætisráðherrann er einasti Íslendingurinn (nema auðvitað að Skallagrímur sé með honum í ráðum) sem enn trúir á íslensku krónuna og ungir Sjálfstæðismenn væla undan vondum utanríkisráðherra sem hefur ekki sagt Bretum stríð á hendur. Þvílíkir aular. Hvernig væri að horfa í eigin barm.

Það er eins og að ekkert megi gera til að bæta efnahagsástandið annað en að gera nýja tilraun til að byggja upp nýfrjálshyggjuna. Allur þróttur virðist farinn úr íslenskri þjóð. Undir Svörtuloftum sitja síðan helstu boðberar nýfrjálshyggjunnar, þeir Davíð og Hannes og gera ekki neitt. Eftir hverju bíða þeir? Fjöldagjaldþrotum á meðan þeir sjálfir eru að setja allskyns hömlur á verslunarfrelsið með 15,5% stýrivöxtum og gjaldeyrishöftum?

Ég er ekki ein um að bíða eftir því að Ingibjörg Sólrún Gísladóttir komi til baka úr veikindaleyfi og taki til hendinni.

Jú, meðan ég man. Ég veit nú að stór hluti Samfylkingarinnar, sennilega stærstur hluti, er mér sammála um að hreinsa þurfi til í Seðlabankanum svo það er óþarfi að segja sig úr flokknum á næstunni, en það þarf grípa til aðgerða strax ef við viljum ekki vera aumingjar í eigin landi um langa framtíð.

Hefur þetta auma lið virkilega aldrei heyrt talað um að vinna sig útúr vandanum og að breyta kúrs í gjaldmiðilsmálum?


0 ummæli:







Skrifa ummæli