mánudagur, október 20, 2008

20. október 2008 - Þrjár vikur af hálfgerðu stjórnleysi

Í dag eru liðnar þrjár vikur síðan Seðlabankinn gerði Glitni sáluga upptækan að stórum hluta með skelfilegum afleiðingum fyrir íslensku þjóðina. Enn vitum við ekkert hvað framtíðin ber í skauti sér og hið einasta sem hefur komið frá ríkisstjórninni og Seðlabankanum eru nokkrir blaðamannafundir þar sem Geir Haarde talar um ekki neitt í véfréttastíl og svo hótanir í garð Breta sem hafa valdið enn verri kreppu en ella væri. Þessar þrjár vikur hafa verið sem stjórnleysi.

Það er ekkert að ske. Almenningur í landinu getur ekkert skipulagt fram í tímann, ekki einu sinni skipulagt næstu vikur. Á meðan veltir ríkisstjórnin því fyrir sér hvort betra sé að ganga í Varsjárbandalagið sáluga undir stjórn Pútíns að hugmyndum Davíðs Oddssonar eða sækja um lán hjá Lánastofnun vanþróaðra ríkja. Og enn situr pólitískt og vanhæft bankaráð Seðlabankans sem fastast sem og enn vanhæfari bankastjórn þess sama banka. Og þjóðin bíður aðgerða á meðan eignir bankanna brenna upp og verða að engu vegna máttleysis ráðamanna og þess að þeim finnst ekkert liggja á.

Á meðan dunda stórþjófarnir sér við að koma undan milljörðum sem þeir hafa stolið svo ekkert verður eftir annað en sviðin jörð þegar ríkisstjórnin loksins skilur að við erum ekki öll í sama báti, þjóðin og þjófarnir.

Þó hefur ein lítil von vaknað um helgina. Ingibjörg Sólrún Gísladóttir er komin aftur til starfa að hluta og óskandi að henni takist að hrista svo upp í stjórninni að hún fari að vinna vinnuna sína. Ekki veitir af svo hægt sé að byrja undirbúning að nýju og réttlátara samfélagi án nýfrjálshyggju í anda Davíðs og Hannesar Hólmsteins.


0 ummæli:







Skrifa ummæli