sunnudagur, október 05, 2008

5. október 2008 - Grunnstoðir eða yfirbygging?

Einhverju sinni, á síðasta námsári mínu í Vélskólanum þurfti ég á peningum að halda, en þótt kominn væri möguleiki á námslánum þegar ég var við nám, sótti ég aldrei um námslán. Ég rölti niður í Sparisjóð vélstjóra og óskaði aðstoðar. Hallgrímur sparisjóðsstjóri var í leyfi og stjórnarformaðurinn tók sjálfur á móti mér.
„Því miður, þú ert ekki með nógu mikil viðskipti til að eiga rétt á víxilláni“ svaraði stjórnarformaðurinn og orð mín um að ég væri í Vélskólanum og væri þarafleiðandi ekki með neinar tekjur að sinni, breyttu engu þar um og ég hrökklaðist út aftur með tóma vasa.

Daginn eftir rölti ég niður í Landsbanka við Austurstræti og hitti fyrir sjálfan Jónas Haralz þáverandi Landsbankastjóra og óskaði þriggja mánaða víxilláns.
„Þú getur ekkert greitt þetta á þremur mánuðum“ svaraði Jónas, „höfum þetta tólf mánuði svo þú þurfir ekki að framlengja víxilinn í sífellu.“

Eftir þetta hefur mér ávallt verið hlýtt til bankastjóra Landsbankans. Ég vil taka fram að Hallgrímur Jónsson þáverandi sparisjóðsstjóri SPV benti mér á síðar, að höfnun stjórnarformannsins hafi verið í trássi við starfsreglur sparisjóðsins.

Í fyrradag birtist viðtal við Jónas Haralz í útvarpinu. Þar benti hann á að munurinn á kreppunni 1967-1969 og þeirri kreppu sem skall á síðastliðinn mánudag, hafi verið sá að kreppan 1967-1969 hafi verið kreppa grunnstoða samfélagsins en nýja kreppan sé kreppa yfirbyggingarinnar. Þótt ég hafi ekki mikið vit á einstöku kreppuþáttum, get ég ekki annað en verið honum sammála. Árið 1967 brást síldin og markaðirnir í Bandaríkjunum hrundu fyrir þorskflökin. Það varð alvöru kreppa með þeim afleiðingum að fólk flúði land þúsundum saman og hefur sumt ekki enn snúið heim aftur.

Ég hefi stundum bent á í pistlum mínum að það sé álið sem bjargar okkur frá því að lenda í hinu sama og 1967. Nú hefur loðnan brugðist og þorskveiðikvótinn er langt undir öllu eðlilegu og þetta tvennt væri tilefni til kreppu ef þjóðfélagið væri svipað og 1967. Munurinn er sá að í dag eru eggin í fleiri körfum. Við höfum þrjú stór álver og ýmsan annan iðnað, margfalda ferðaþjónustu frá því sem var fyrir 40 árum. Við lendum vonandi ekki aftur í kreppu sem þeirri sem við kynntumst 1967.

Nýja kreppan er hagsældarkreppa, kreppa yfirbyggingarinnar. Nýja kreppan getur orðið enn dýpri en sú sem hrjáði okkur 1967, en hún getur sömuleiðis batnað á stuttum tíma. Nú er tækifærið að fjárfesta í hlutabréfum og sparnaði, nokkru sem Íslendingar hafa aldrei kunnað.

Hvernig væri að við hlustuðum aðeins betur á þá sem hafa reynsluna og þroskann?


0 ummæli:Skrifa ummæli