föstudagur, október 17, 2008

17. október 2008 - Ísland, litlasta land í heimi?

Sjálfsvorkunn er vondur siður. Með sjálfsvorkunn er fólk oft á tíðum að niðurlægja sjálft sig og uppsker ekki annað en háð og fyrirlitningu, ekki síst þegar lítil eða engin ástæða er til sjálfsvorkunnar. Stundum gengur sjálfsvorkunin út í hinar verstu öfgar og stundum svo illa að tekst að eyðileggja hinn besta málstað.

Ég stundaði sjálfsvorkunn einu sinni. Það voru allir svo vondir við mig og ég fékk stuðning við sjálfsvorkunina frá fjölda fólks sem einnig var reiðubúið að taka á móti meðaumkvun. Þó með undantekningu frá einni vinkonu minni sem gerði grín að mér. Smám saman lærðist mér að ekkert lagast við sjálfsvorkunn og að ég var í reynd ófær um að hjálpa öðru fólki vegna eigin sjálfvorkunnar og ég lagði af þennan leiða ósið.

Í dag hefur heilt þjóðfélag lagst í sjálfsvorkunn og þunglyndi. Við erum svo lítil og vanmáttug að við þurfum á vorkunnsemi að halda. Það sem aflaga hefur farið, er allt hinum vonda Gordon frá hinum skosku Brúnastöðum að kenna. Íslendingar hafa ekkert gert rangt. Ekki einu sinni Geir, Árni og Davíð með ummælum sínum um að við borgum ekki, eða þá misskilningi enskra um að við borgum ekki.

Gordon frá Brúnastöðum er líka vorkunn. Hann vantaði blóraböggul til að lyfta sér upp í vinsældum því ekki eru persónutöfrarnir til að hjálpa honum. Hann vantaði eitthvað á borð við nýtt Falklandseyjastríð og hann fékk þetta stríð upp í hendurnar fyrirhafnarlaust. Þeir Geir, Árni og Davíð gáfu honum þetta tromp og hann nýtti sér það út í ystu æsar. Hann þurfti ekki að hafa áhyggjur af íslenskum atkvæðum. Íslensk atkvæði greiða ekki atkvæði í enskum kosningum. Íslensk þjóð gerði nákvæmlega það sem alls ekki má gera við slíkar aðstæður. Hún fór að gráta og óskaði meðaumkvunar frá heimsbyggðinni.

„Við erum svo fátæk og okkur líður svo illa. Komið og hjálpið okkur gegn hinum vondu Bretum“.

Og heimsbyggðin hlustaði og tók okkur á orðinu.

„Greyin mín, við skulum hjálpa ykkur. Komið með greiðslukortin ykkar og við skulum klippa þau svo þið eyðið ekki aftur umfram efni“.

Eftir situr stórskuldug íslensk þjóð, höfð að athlægi og fær ekki einu sinni greiðslufrest á skuldum sínum. Suður í Englandi situr vinaþjóð okkar og hefur tapað trúnni á víkingana úr norðri sem reyndust vera úr pappír þegar á reyndi og peningarnir sem þeir ætluðu að nota til að ná yfirráðum í Englandi reyndust vera matadorseðlar.

Hvernig væri það að hætta þessu væli, rétta úr bakinu og reyna að vinna okkur úr ósómanum, ekki með sjálfvorkun, ekki með stærilæti, heldur með hógværð og stolti?

Fyrir tveimur mánuðum var Ísland stórasta land í heimi, nú er það litlasta land í heimi!


0 ummæli:







Skrifa ummæli