þriðjudagur, október 28, 2008

27. október 2008 – Af nýju tölvudellunni og varasömum strætisvagnsstjóra.

Það er kominn rúmur áratugur frá því ég eignaðist fyrstu tölvuna mína og tengdist netinu. Síðan þá hefi ég gengið í gegnum hinar ýmsu tegundir netnotkunar, auk netpósts, irkið, icq, msn, vefspjallið, bloggið og núna síðast samþykkti ég að gerast fésbókarvinur einhvers og vissi ekkert hvað ég var að fara út í.

Ég var komin með á þriðja tug fésbókarvini þegar ég fór að skoða það eitthvað nánar. Þá lá einhver hrúga af allskyns tillögum um að ég ætti að kanna hvaða kvikmyndastjörnu ég átti að líkjast, hvaða Simpson karakter færi mér best og fleira sem höfðaði alls ekki til mín.

Fyrir nokkru óskaði tyrknesk vinkona mín eftir fésbókarvináttu og samþykkti ég hana. Síðan kom ein ensk frænka mín sem hafði misst sambandið við fjölskylduna og ég fór að skoða betur möguleikana. Nú er ég komin með álitlegan hóp gamalla og góðra vina á fésbók sem ég hefi kynnst í gegnum árin, bæði hér heima og erlendis, jafnt sænskan herforingja sem lögfræðing frá Venesúela.

Þetta fésbókardæmi er kannski ekki eins vitlaust og það virtist vera í upphafi.

-----oOo-----

Ég var úti að aka á mánudaginn og þar sem ég hélt niður í gegnum Hálsaskóg mætti ég strætisvagninum sem flytur Gurrí bloggvinkonu stundum til vinnu í Hálsaskóginn. Það var talsvert af fólki í vagninum, en ekki hreifst ég mjög af vagnstjóranum sem virtist önnum kafinn við að tala í síma í akstri.


0 ummæli:Skrifa ummæli