miðvikudagur, október 08, 2008

8. október 2008 - Góður þjónustufulltrúi er gulli betri



„Mér er sama hvað þú gerir, en talaðu við mig ef þú sérð fram á greiðsluvandræði“

Ég er í hópi þess fólks sem kann ekki með peninga að fara. Mér tekst ávallt að eyða hraðar en ég afla auranna og þarf eiginlega að vera með virkan fjárhaldsmann sem stýrir eyðslunni minni svo ég eyði ekki umfram efni.

Eftir að ég flutti heim frá Svíþjóð og hóf störf hjá Hitaveitu Reykjavíkur, kynntist ég ágætlega hjálpsemi konu einnar, en þar sem ég festi bíl minn seint um kvöld í snjóskafli á Nesjavallavegi nokkrum dögum fyrir jól, birtist hún eins og engill út úr myrkrinu með skóflu í hönd. Tveimur dögum síðar átti ég erindi í banka og þá reyndist gjaldkerinn sem afgreiddi mig vera sama konan. Ég festist í þessum banka. Áður en langt um leið var launareikningur minn kominn í sama bankaútibú og síðan fylgdi á eftir greiðsludreifing, VISA-kort, yfirdráttarlán og síðar íbúðarlán.

Ég var einmitt að ganga frá fyrstu greiðsludreifingaráætluninni minni í bankanum þegar þjónustufulltrúinn sagði þessi fleygu orð við mig sem voru upphaf þessa pistils. Ég hefi farið eftir þessum orðum og nokkrum sinnum hefi ég lent í erfiðleikum sem hefðu getað valdið vanskilum ef ekki hefði verið vegna þessara orða. Í þessi skipti nægði að hringja eða mæta á staðinn og málin leystust fljótt og vel.

Þessum tveimur starfsmönnum Landsbankans á ég sérstaklega mikið að þakka, Ólafíu sem var gjaldkeri er ég hóf viðskipti við Grensásútibú Landsbankans í desember 1996 og Sólveigu sem hefur verið þjónustufulltrúinn minn öll þessi ár frá því fljótlega eftir þetta. Ólafía hefur fyrir löngu fært sig um set innan Landsbankans og er nú við bókhaldsstörf, en Sólveig starfar nú við útibúið í Kópavogi eftir að Grensásútibú og síðar Háaleitisútibú voru lögð niður.

Það er ekki gaman að standa frammi fyrir þeirri stöðu að vinnustaðurinn sem staðið hefur allt af sér í 123 ár er á barmi gjaldþrots. Ólafía og Sólveig, annað starfsfólk Landsbankans sem og annað venjulegt starfsfólk þeirra fyrirtækja sem nú eru að loka, á samúð mína alla og vona ég innilega að þær og allt þetta góða fólk fái réttan hlut sinn og stöðu á þessum erfiðleikatímum.


0 ummæli:







Skrifa ummæli