þriðjudagur, október 21, 2008

21. október 2008 - Krepputal

Í gær voru komnar þrjár vikur síðan kreppan skall á Íslandi. Fljótlega eftir að kreppan skall á fór að bera á samúðarkveðjum sem mér bárust frá vinafólki erlendis, Norðurlöndunum, Mið-Evrópu, Bretlandseyjum, Kanada, Ástralíu. Það var ljóst að Ísland var inni í alheimsumræðunni á neikvæðan hátt og fólk hélt ástandið á Íslandi mun verra en ríkisstjórnin vill vera láta.

Fljótlega fór þó að bera á öðruvísi netpóstum frá fólki sem vill kaupa allt Ísland á brot af raunvirði til eigin hagnaðar, fólki sem vill kaupa allar þær lúxuskerrur sem hægt er að fá fyrir brot af raunvirði og biður mig að gerast milligöngumanneskja við kaupin og að sjálfsögðu fyrir ekki neitt. Æ, þvílíkir vinir .

En ég einnig fengið öðruvísi pósta og þá einvörðungu frá Norðurlöndunum. Það eru atvinnuauglýsingar sem sumir sænskir vinir mínir telja að ég geti haft áhuga fyrir, þ.e. til starfa í orkuverum og á sjó á skipum í sænskri eigu því þótt Eimskip hafi ekki efni á að ráða íslenska vélstjóra á sjóræningjaskipin sín, þá er þeirra þörf annars staðar. Síðast í morgun fékk ég sömu fréttatilkynninguna frá tveimur óskyldum aðilum í Svíþjóð, en um er að ræða frétt þess efnis að samgönguráðherra Svíþjóðar ætli að skipa nefnd til að skoða hið alvarlega vandamál sem er að skapast á sænska verslunarflotanum vegna skorts á vélfræðingum/vélstjórum með full réttindi.

http://teknik360.idg.se/2.8229/1.186586/fler-ingenjorer-behovs-inom-sjofarten

Það er gott að hafa þetta í huga ef ríkisstjórnin ætlar að láta okkur borga allt tjónið sem útrásardrengirnir hafa valdið íslensku þjóðinni með sköttunum okkar með þeim afleiðingum að ekki verður líft lengur á Íslandi.


0 ummæli:Skrifa ummæli