sunnudagur, október 26, 2008

26. október 2008 - Fólk snýr baki við stjórninni ...

...segir Guðni Ágústsson frá Brúnastöðum formaður Framsóknarflokksins í stuttu viðtali við Fréttablaðið í tilefni af skoðanakönnun þar sem Framsóknarflokknum er spáð verulegu fylgistapi þrátt fyrir að vera í stjórnarandstöðu á þessum þrengingartímum. Sömuleiðis bætir hann við að þessi niðurstaða gefi honum nýja von um að fólkið muni vilja ný gildi og þá muni Framsókn rísa upp.

Kannski eru orð Guðna eðlileg í ljósi þess að Framsóknarflokkurinn hefur misst tökin á landsmálunum. Daginn sem ný ríkisstjórn var mynduð fyrir rúmi ári síðan hætti Framsókn nefnilega að styðja þá nýfrjálshyggju sem hún hafði stutt um margra ára skeið í stjórnarsamstarfi við Sjálfstæðisflokkinn og hóf hina hörðustu baráttu gegn því sem hún hafði áður stutt einarðlega.

Þessi sinnaskipti Framsóknar breyta þó litlu þegar fylgistapið blasir við. Almenningur á Íslandi veit og skilur að Framsóknarflokkurinn ber mikla ábyrgð á því efnahagsástandi sem nú blasir við þrátt fyrir þung orð formannsins. Því er eðlilegt að rifja upp afskipti Framsóknarflokksins af landsmálunum um tólf ára frjálshyggjuskeið Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks þegar kemur að næstu alþingiskosningum.

Þá verður full ástæða fyrir Framsóknarmenn að kvíða úrslitunum.


0 ummæli:







Skrifa ummæli