föstudagur, október 31, 2008

31. október 2008 - Af næsta formanni Sjálfstæðisflokksins

Löngu áður en fjármálakerfi Íslands hrundi eins og spilaborg, var Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir farin að hvetja til opinskárrar umræðu um aðild að Evrópusambandinu, þótt sjálf væri hún efins um aðild Íslands að því. Þetta var í hrópandi ósamræmi við stefnumið útgerðarauðvaldsins sem hefur hingað til bannfært alla umræðu í þá veru.

Þessi ummæli eiga ágætlega heima hjá hófsömum hægrimönnum og jafnaðarmönnum um alla Evrópu sem telja að hag þjóða sinna sé best borgið með inngöngu í Evrópusambandið og beinni eða óbeinni þátttöku í myntbandalaginu.

Þorgerður hefur gert meira sem ekki er stýrt í blindni eftir ákvörðunum bláu handarinnar. Þess ber að minnast er hún réði son Magnúsar símstöðvarstjóra og eðalkrata í Vestmanneyjum sem útvarpsstjóra, enda strákurinn með mesta og besta reynslu af rekstri útvarps og sjónvarps á Íslandi og því hæfastur til starfans.

Nú síðast lét hún hafa eftir sér ummæli í Viðskiptablaðinu sem gætu verið hógvær gagnrýni á almætti Sjálfstæðisflokksins:

Seðlabankinn á ekki að vera með hnútukast við ráðherra

Ég fæ á tilfinninguna að einasta von Sjálfstæðisflokksins sé fólgin í að fá konu sem næsta formann, konu sem þorir að tala opinskátt og er ekki bundin af helsi bláu handarinnar.

http://www.vb.is/frett/1/49198/sedlabankinn-a-ekki-ad-vera-med-hnutukast-vid-radherra


0 ummæli:







Skrifa ummæli