laugardagur, október 25, 2008

25. október 2008 - Nú er frost á Fróni nema í útvarpinu

Eins og gefur að skilja, er stundum dálítið erfitt að koma sér á fætur og til vinnu snemma á laugardagsmorgni eins og ég þurfti að gera í morgun. Kisurnar mjálmuðu og kærðu sig ekkert um að fara út, en notuðu tækifærið og skriðu undir sæng í hlýju bólinu mínu þegar ég var komin framúr og nóg pláss án þess að eiga á hættu að verða fyrir hnjaski af hálfu fullorðinnar manneskju.

Ég kom mér út úr húsi og gekk í átt til vinnu. Það var kalt og hráslagalegt og ég renndi flíspeysunni alveg upp í háls og sömuleiðis vetrarúlpunni og gekk rösklega til vinnu minnar því ekki mátti ég til þess hugsa að verða of sein til vinnu, sei sei nei, ónei og aldrei. Ég kom til vinnu á réttum tíma og leysti næturvaktina af og þar sem ég fór yfir kerfin heyrði ég fréttirnar í útvarpinu. Á eftir fréttunum var sagt frá veðri og lesnar hitatölur frá því klukkan sex.

„Reykjavík fjögurra stiga hiti“ glumdi í útvarpstækinu. Ég fann hvernig mér hlýnaði í kroppnum og sólin skein í heiði þótt enn væri myrkur utandyra og frost á öllum mælum. Ég byrjaði að fækka fötum og dró úr keyrslu á svo allt yfirfylltist ekki með hraði miðað við slík hlýindi.

Ætli útvarpið hafi fengið hitamælinn hans Gests Einars á Akureyri lánaðan suður yfir helgina? Þetta er víst mikill undrahitamælir sem hann notar nyrðra í stúdíóinu til að plata okkur höfuðborgarbúa til að ferðast norður með hlýlegum hitatölum.


0 ummæli:







Skrifa ummæli