sunnudagur, október 12, 2008

13. október 2008 - Hugleiðingar um óðaverðbólgu.


Seinsumars 1973 gerðist ég óþekk í sovéskri hafnarborg sem nú er höfuðborg lítils ríkis við Eystrasalt. Við líkamsleit áður en mér var vísað til skips í lögreglufylgd fundust nokkrar heiðarlega fengnar rúblur í fórum mínum og þar sem ég gat gert grein fyrir þeim, mátti ekki gera þær upptækar. Þær voru samt teknar af mér og lagðar á banka í mínu nafni. Síðan liðu mörg ár áður en ég fékk að stíga fæti á sovéska grund að nýju þótt málin séu nú löngu fyrnd m.a. með hruni Sovétríkjanna. En rúblurnar á ég enn á sovéskum bankareikningi þótt kvittunin sé löngu týnd.

Í krafti þess að Pútín mun hafa boðið Íslendingum nokkrar rúblur að láni hefi ég fengið allnokkur skeyti á netinu þar sem sýndur er nýr peningaseðill með mynd af Pútín. Með þessu rifjast upp árin eftir 1980 þegar verðbólgan á Íslandi fór upp í 80% (oft sögð fara upp í 130%). Það þykir þó ekki mikið þegar ríki eru nálægt því að verða gjaldþrota eins og Ísland í dag.


Með friðarsamningunum í Versölum 1919 voru Þjóðverjum settir afarkostir og til greiðslu himinhárra stríðsskaðabóta til Frakklands og allir vita hvernig fór. Þýskaland varð nánast gjaldþrota. Þýska markið varð einskis virði og fólk fór heim með launin sín í hjólbörum sem voru miklu meira virði en peningarnir sem voru fluttir heim. Þótt vissulega tækist að koma böndum á óðaverðbólguna í desember 1923 var Þýskaland illa haldið næstu árin á eftir.


Í Zimbabwe kom ofbeldið innan frá sem olli kreppunni og síðan óðaverðbólgu og þjóðargjaldþroti. Fjárhagurinn í Zimbabwe er enn í kaldakoli þótt sjá megi merki um bættan hag þjóðarinnar á næstunni.


Það er enn ekki orðin óðaverðbólga á Íslandi þótt landið sé nánast gjaldþrota. Ekki getum við heldur gengið sömu þrautagönguna og Þýskaland, enda er það löngu búið að vinna sig útúr vandræðunum og auki búið að taka upp evru sem við fáum ekki að taka upp vegna bágborins efnahags. Það er enn möguleiki á að taka upp Zimbabwedollar sem er álíka mikils virði og íslenska krónan.

Þá þarf íslenska þjóðin bara að greiða stríðsskaðabætur til Englands og Hollands og kannski nokkurra ríkja í viðbót. Með þessu er lítil hætta á að verðbólgan fari í nema nokkur þúsund prósent á næstunni. Mér finnst að auki sennilegt að við lærum af mistökum hinna ríkjanna og gætum þess að sterkir leiðtogar á borð við ...hugs... afsakið, Hitler og Mugabe komist ekki til valda í kjölfar gjaldþrotsins og neiti að greiða stríðsskaðabæturnar.

Einhver benti á að við gætum farið sömu leið og grannþjóð okkar í suðvestri, Nýfundnaland. Það varð gjaldþrota 1949 og sameinaðist Kanada í kjölfarið. Eftir slíka sameiningu verðum við öll Westurfarar eins og frændfólk okkar á þarsíðustu öld. ég er viss um að Kanadadollarinn verði mun heppilegri mynt en Zimbawedollarinn, enda gamla Reichsmarkið löngu aflagt.

Ég er að velta því fyrir mér hvort Pútín ætli að lána Davíð Oddssyni rúblurnar mínar sem ættu að vera orðnar að dálaglegri summu á 35 árum með vöxtum og vaxtavöxtum.


0 ummæli:Skrifa ummæli