föstudagur, október 31, 2008

31. október 2008 - Af eftirlaunafrumvarpinu

Aðfararnótt þess 29. maí síðastliðinn ritaði ég stuttan pistil þar sem ég ítrekaði andstöðu mína við framboð Íslands í öryggisráð Sameinuðu þjóðanna, en um leið ítrekaði ég kröfu mína um að draumalög Davíðs Oddssonar um eftirlaun æðstu ráðamanna yrðu afturkölluð og nefndi í því sambandi að ég krefðist þess að eftirlaunafrumvarpið yrði mál númer tvö á haustþinginu.

Heimurinn hafði vit fyrir Íslandi varðandi öryggisráðið og hafnaði þátttöku Íslands í ráðinu. Það er eðlilegt því Ísland situr enn með þá skömm að hafa verið taglhnýtingur Bandaríkja Norður-Ameríku í flestum málum allt til myndunar núverandi ríkisstjórnar, þar sem stuðningur Íslands við innrásina í Írak var toppurinn á hneisunni. Þótt Ísland hafi nú tekið sjálfstæðari stefnu í utanríkismálum með ákveðni Ingibjargar Sólrúnar Gísladóttur, er það hvergi nærri nóg, en um leið merki þess að sjálfstæð utanríkisstefna er hið eina rétta fyrir lítið land eins og Ísland.

Eitt af síðari lögum sem sett voru í tíð ríkisstjórnar undir stjórn Davíðs Oddssonar, voru illræmd eftirlaunalög til handa æðstu embættismönnum og stjórnmálamönnum. Þessi eftirlaun eru alvarlegur þyrnir í augum flestra Íslendinga og enn ein sönnunin um að spillingin á Íslandi er meiri en heimurinn gerir sér grein fyrir.

Tveimur dögum áður en þing kom saman í byrjun mánaðarins, hrundi íslenska fjármálakerfið og því eðlilegt að ekki yrði afnám sérréttinda lítils hóps fyrsta mál þingsins á eftir fjárlagafrumvarpinu. Nú er kominn mánuður frá því þing kom saman og þingmenn reyna að gleyma loforðum sínum um afnám sérréttinda sinna. Við höfum enn ekki gleymt því og ég vona heitt og innilega að Ingibjörg Sólrún Gísladóttir sýni okkur, alþýðu þessa lands að henni sé alvara með grunnstefnu Samfylkingarinnar um jöfnuð á erfiðum tímum, nú með endurupptöku frumvarps Valgerðar Bjarnadóttur um afnám eftirlaunalaga Davíðs Oddssonar og síðan flýtiafgreiðslu þeirra með lagasetningu fyrir jól.

Því minna sem við sjáum af nýfrjálshyggju og sérréttindum þeim sem Davíð Oddsson og félagar hans hafa tryggt sjálfum sér, því betra fyrir Ísland.

http://velstyran.blog.is/blog/velstyran/entry/553781/#comments


0 ummæli:Skrifa ummæli