fimmtudagur, október 30, 2008

30. október 2008 - Enn af kreppunni!

Það var í kreppunni 1967 – 1969. Það hafði nýr maður verið ráðinn um borð til okkar, kornungur fjölskyldumaður með bæði konu og lítið barn sem kaus fremur að fara á sjóinn en að sitja heima atvinnulaus. Einhver áhafnarmeðlima heyrði á tal ungu hjónanna er þau voru að kveðjast áður en haldið var úr höfn og var óspart gert gys að orðum piltsins þegar hann heyrði ekki til, en hann hafði uppi einhver orð um að eignast peninga með ráðningu sinni um borð. Hann var ekki margar ferðir um borð hjá okkur, féll einangrunin og sjómennskan illa, en þó held ég að hann hafi spjarað sig ágætlega eftir að í land kom.

Í kreppunni 1967 – 1969 þurfti ég ekki að hafa áhyggjur af atvinnuleysi. Ég hafði nóg að gera allan tímann þótt launin væru lág á sama tíma og fólk flúði land þúsundum saman. Sú kreppa var samt öðruvísi en nýja kreppan sem skall á okkur 29. september síðastliðinn. Öfugt við nýju kreppuna var hún af annarra völdum, hruns á síldarstofnum, verðhruns á þorski á Bandaríkjamarkaði. Nýja kreppan er af öðrum völdum, milljarðaþjófnaði fárra auðkýfinga framhjá blindum augum illa haldinna stjórnvalda sem sitja í skjóli Sjálfstæðisflokksins.

Sumar atvinnugreinar munu halda sínu þrátt fyrir kreppuna. Við sem vinnum í orkugeiranum erum í góðum málum, sömu sögu er að segja um starfsfólk í sjávarútvegi, landbúnaði, áliðnaði, ferðaþjónustu. Sömu sögu er að segja um Marel og Össur. Hinar ýmsu greinar hins opinbera munu þurfa að halda sínu, læknar og hjúkrunarfólk munu finna fyrir auknu álagi, lögregluþjónar þurfa fleiri brúsa af piparúða og sérstakar æfingar í að segja „gas“. Grunnstoðir samfélagsins munu halda áfram.

Ég er samt með áhyggjur. Tvö barna minna vinna við verslunarstörf í einkageiranum. Ég get ekki sagt að mér komi kreppan ekkert við á meðan mín eigin börn óttast atvinnuleysi, ekki síst þegar kreppan er enn að slíta barnsskónum. Þá er við því að búast að fólk sem telur sig í góðum málum, lendi í niðurskurði og uppsögnum.

Við skulum samt vona hið besta.

----oOo----

Litla systir er ein af þeim sem urðu fyrir barðinu á kreppunni áður en hún skall á. Hún var að vinna í Sparisjóðnum og var í hópi fjölmenns hóps kvenna hjá Sparisjóðnum yfir fimmtugt sem misstu vinnuna í vor sem leið. Síðan þá hefur hún prjónað til að forðast þunglyndi og einmanaleika á dagvinnutíma.

Það er ástæða til að hugsa hlýlega til litlu systur minnar, enda varð hún sextug í gær og má hún fá allar mínar hamingjuóskir. Eru nú einungis tvö yngstu systkinin undir sextugu, litli bróðir sem verður sextugur eftir tvö ár og svo ég sem er að sjálfsögðu rétt skriðin af barnsaldri. 


0 ummæli:Skrifa ummæli