sunnudagur, október 01, 2006

1. október 2006 - ...og herinn á brott :)

Herinn er farinn. Eftir 66 ár af hersetu sem hófst 10. maí 1940, er íslensk þjóð laus við erlendan her í fyrsta sinn frá stofnun lýðveldis. Þeim sem ekki gerðu sér grein fyrir þeirri hættu sem stafaði af dvöl erlends herliðs á Íslandi er söknuður í huga, í hugum okkar hinna ríkir fögnuður. Fögnuðurinn er þó blendinn. Við vitum að ætlunin með brottför hersins er ekki sú að hann sé hættur að “verja” okkur, fremur sú að skjóta þarf fólk og limlesta austur við Persaflóa og Bandaríkjamenn þurfa á öllu sínu að halda til að ljúka ætlunarverki sínu, að gera ekki bara ríkisstjórn, heldur og írösku þjóðina að handbendi sínu. Á þessari stundu bendir ekkert til að þeim verði að ósk sinni.

Ég get ekki haldið því fram að samskipti mín við herinn hafi verið mikil. Ég man eftir svokölluðum þrýstiloftsflugvélum (þotum) á þeirra vegum sem flugu yfir suðvesturlandið, stundum oft á dag, í bernskunni, flugvélum sem minntu meira á krossa á himnum sökum þess hvernig þær voru í laginu. Þá man ég eftir þyrluslysinu 1. maí 1965, en ég og félagi minn vorum á ferð á reiðhjólum ekki fjarri þeim stað sem þyrlan hrapaði og komum nokkru seinna að slysstað. Það vorum þó ekki við sem getið var í frásögn Morgunblaðsins af slysinu. Síðar sigldi ég í nokkur ár á milli Íslands og Bandaríkjanna og þá með helstu viðkomu í Portsmouth/Norfolk í Virginia og stundum var einnig komið við í herstöðvunum í Bayonne í New Jersey og í Argentia á Nýfundnalandi. Síðustu afskipti mín af hernum á Miðnesheiði voru síðan í janúar 2003 er ég fór á vegum vinnunnar í heimsókn hjá Öryggiseftirliti hersins þar sem við heimsóttum m.a. þyrlubjörgunarsveitina og fengum góða innsýn inn í störf hennar. Ákaflega ánægjuleg heimsókn.

Persónuleg kynni af hermönnum og starfsfólki hersins hefur sömuleiðis verið með ágætum, enda hafði andstaðan alla tíð verið án nokkurs kala í garð einstakra persóna á Miðnesheiði, heldur einungis þeirrar stefnu stjórnvalda á Íslandi sem og í Bandaríkjunum, að hafa hér her á friðartímum. Þá hefi ég margsinnis lýst því yfir, að ég telji skort á björgunartækjum vera Íslandi til vansa og hefi margoft lýst eftir úrbótum á því sviði sem senn verður að einhverju leyti að veruleika.

Á þessari stundu er þó full ástæða til að fagna brottför hersins og bjóða velkomin þau tækifæri sem bjóðast með brottför hans.

-----oOo-----

Laugardagurinn var erfiður í íþróttum. Heimsmethafinn geðþekki lenti í 6. sæti í tímatökunum í Formúlunni og ekki betur á Íslandi þar sem liðið okkar Þórðar og Steina spilaði langt undir væntingum. Í ensku kvenfélagsdeildinni héldu hetjurnar hugumfráu uppteknum hætti og héldu olympíuhugsjóninni á lofti með glæsilegu tapi gegn Stefánsborg. Hið einasta sem vakti gleði var sigur Sameiningar Mannshestahrepps á Backup borg með 3-0 í fyrstu Vestfjarðadeildinni í Englandi.


0 ummæli:Skrifa ummæli