mánudagur, október 30, 2006

30. október 2006 – Enn af prófkjörum

Ég varð geysilega roggin með mig eftir að úrslit voru ljós í prófkjöri Íhaldsins í Reykjavík á laugardagskvöldið og þakkaði sjálfri mér kærlega fyrir að hafa fellt kriegsminister Bjarnason úr öðru sætinu í prófkjöri þeirra. Að minnsta kosti mátti ætla það af orðum orðum Geira harða, Bjarnasonar sjálfs og Guðlaugs Þórðarsonar. Samt var eins og einhver hjáróma rödd hvíslaði að mér að ég ætti engan þátt í þessu, þetta væri verk flokksbundinna Sjálfstæðismanna en ekki mitt.

Það var nokkuð til í þessu. Ég hafði jú talað illa um bæði Guðlaug Þór Þórðarson og Björn Bjarnason og því væru þessi úrslit ekki mér að þakka. Kannski skrökvuðu þeir allir, er þeir kenndu andstæðingum Sjálfstæðisflokksins um úrslitin, en vildu bara kenna okkur um innri valdabaráttu. Allavega fá andstæðingar Sjálfstæðisflokksins ekki að taka þátt í prófkjörinu.

Enn hefi ég ekki fengið að vita hversu mjög Jói vinur minn var rassskelltur í prófkjörinu.

-----oOo-----

Þegar haft er í huga að Sjálfstæðisflokkurinn er dæmigerður karlrembuflokkur, þóttu mér úrslitin í prófkjöri Samfylkingarinnar í Norðvesturkjördæmi öllu grátlegri. Þótt ekki mætti ég heldur kjósa þar, veðjaði ég á nöfnu mína Gunnarsdóttur og Helgu Völu, en varð ekki að ósk minni þar sem þær virðast hafa lent í þriðja og fimmta sæti. Þetta voru því vond úrslit fyrir Samfylkinguna á landsvísu í ljósi þess að Samfylkingin hefur stutt kvennabaráttuna. Við verðum því að rétta af hlut okkar fólks í Reykjavík og víðar.


0 ummæli:Skrifa ummæli