sunnudagur, október 08, 2006

8. október 2006 - Næstibar

Það greip mig einhver ósjálfráð löngun til að fara út á lífið á föstudagskvöldið eftir að hafa verið í tuttugu ára afmæli þess ágæta fyrirtækis Barnasmiðjunnar, en hún er í eigu vina minna síðan 1982, þeirra Elínar og Krumma. Ég hafði hugsað mér að fara með strætisvagni til Reykjavíkur, en vinkonu minni sem ákvað að koma með fannst miklu betra að láta dóttur sína með glænýtt bílpróf skutla okkur í bæinn. Fyrir bragðið komum við ekki í bæinn fyrr en komið var nokkuð framyfir miðnætti og héldum beint á Næstabar.

Af einhverjum ástæðum fannst mér meira reykt þar en endranær. Ég settist um tíma við borð hjá fólki sem allt keðjureykti og var ég brátt orðin eins og reykt lambakjöt. Þrátt fyrir þetta var mikið af gamla góða liðinu á kránni, þótt fáir væru bloggararnir á staðnum eins og ég hafði þó gert mér vonir um að hitta. Þó vantaði slatta af gömlum baráttufélögum, t.d. var Birna ekki á staðnum og sömuleiðis vantaði Djúsa. Á næsta borði sat Kolbeinn, en ég þekki hann ekki persónulega. Við borðið okkar sat Hildur Helga Sigurðardóttir og áttu hún og Dagbjört margt sameiginlegt af lífsreynslu, enda hafa báðar búið langdvölum í Englandi. Guðrún Ögmundsdóttir alþingismaður kom ásamt eiginmanni á Næstabar og eins skemmtileg og jákvæð og endranær. Sömu sögu var að segja af Susönnu Svavarsdóttur blaðakonu, Guðrúnu Gísladóttur og Unni Ösp Stefánsdóttur leikkonum. Semsagt velheppnað kvöld.

-----oOo-----

Allt fór í vaskinn í ensku knattspyrnunni í gær. Að vísu tókst spútnikliðinu Sameingu mannshestanna að mala eitthvert lið sem ég kann ekki að nefna í vasabikarnum, en Halifaxhreppur tapaði að venju í kvenfélagsdeildinni. Ég er farin að hafa áhyggjur af þeim. Við sjáum hvernig fer að viku liðinni.


0 ummæli:Skrifa ummæli