föstudagur, október 27, 2006

27. okóber 2006 – Að tapa stríði

Þegar Bandaríkin, Bretland, Ástralía, Danmörk og fleiri árásarríki réðust inn í og hernumdu Írak með stuðningi Íslands og fleiri örríkja, var ljóst að þetta gæti ekki farið vel. Sex vikum eftir innrásina lýsti George Dobbljú Bush því yfir að stríðinu væri lokið með sigri Bandaríkjanna og nokkru síðar lýsti Davíð Oddsson þáverandi forsætisráðherra Íslands því yfir að það væri friður í nánast öllu Írak, kannski að fimm prósentum eða héruðum frátöldum. Síðan þetta var, eru liðin meira en þrjú ár og enn er barist og enn eru hin vestrænu möndulveldi að glata mannslífum í tilgangslausri styrjöld sem er löngu lokið að þeirra mati.

Þegar ráðist var inn í Írak var aðeins ein leið út aftur, með því að skipta Írak upp í nokkur smærri ríki. Nú eru vesturveldin komin í sjálfheldu þarna austurfrá og einungis ein leið er sjáanleg í náinni framtíð, að skipta landinu upp í þrjú ríki, Kúrdistan, Súnníta-Írak og Shíta-Írak. Þar með er ekki sagt að friður komist á í landinu. Stór svæði eru blönduð og þar verður barist áfram um völd og yfirráð auk baráttu um olíuna.

Það eru komin fimm ár síðan Bandaríkin sprengdu Afganistan aftur á steinöld. Síðan þá hefur ríkt borgarastyrjöld í landinu sem stjórnað er af hinum ýmsu ættbálkum auk talíbana sem enn ráða hluta landsins. Það ríkir enn kvenfyrirlitning í landinu, auk þess sem ópíumræktin stefnir í að verða hin mesta í heimi undir öruggri vernd Bandaríkjanna og leppríkja þeirra.

Bandaríkin og fylgifiskar þeirra hafa misst á fjórða þúsund mannslíf í þessum tveimur ríkjum það sem af er, minnst 3041 líf í Írak og 341 líf í Afganistan. Kannski eru mannslífin mun fleiri, en ríki í styrjöldum hafa tilhneigingu til að gera sem minnst úr mannfalli eigin herja. Þá er talið að Írakar hafi misst á milli 50.000 og 650.000 manns á þessum þremur árum, aðallega óbreytta borgara, konur, karla, börn.

Í stað þess að beita skynseminni, biðja þjóðirnar afsökunar á árásum sínum, hætta árásum og byrja að byggja upp löndin útfrá mannúðarsjónarmiðum, hafa Bandaríkin hafið styrjaldaráróður gegn öðrum ríkjum eins og í undirbúningi undir væntanlegar innrásir í þessi ríki, Íran og Norður-Kóreu. Ég óttast afleiðingar þessa áróðurs. Ætla þeir aldrei að skilja það að nærveru þeirra er ekki óskað í þessum löndum?

Loks vil ég taka fram að ég er sátt við hina breyttu stefnu gagnvart Afganistan sem Valgerður Sverrisdóttir hefur boðað og miðast við mannúðarsjónarmið fremur en jeppagengi í leit að útsölu á teppabútum.


0 ummæli:







Skrifa ummæli