þriðjudagur, október 17, 2006

18. október 2006 – 2. kafli - Prófkjörsraunir Kókómó

Ágætur fyrrum skipsfélagi minn af þremur skipum, Jóhann Páll Símonarson að nafni, bauð sig fram í níunda sæti í prófkjöri Sjálfstæðisflokksins fyrir síðustu borgarstjórnarkosningar ef mig misminnir ekki. Ekki reið hann feitum hval frá prófkjörinu, því hann hafnaði í fjórtánda sæti. Í framhaldinu var honum hafnað af framboðslista Sjálfstæðisflokksins, en fékk sæti sem varamaður í stjórn Faxaflóahafna í sárabætur. Þótt mér þyki þetta lítil umbun fyrir gamlan sjójaxl, er ég sannfærð um að Jói standi sig ágætlega í varastjórn Faxaflóahafna, enda vanur að fást við öryggismál sjómanna og sjálfur fórnarlamb vinnuslyss á sjó.

Enn og aftur er Jói kominn í prófkjör, nú til sjötta sætis í prófkjöri Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík. Um leið er skarð fyrir skildi þar sem fyrrverandi formaðurinn hans hættir á Alþingi í vor. Efa ég ekki að Jói láti sig dreyma um sæti Guðmundar Hallvarðssonar á Alþingi. Þótt Jói sé orðinn virðulegra 55 ára gamall og því ekki með legvatnið í hárinu eins og sumir mótframbjóðendur hans, óttast ég að fara muni fyrir honum á sama hátt og fyrrum, enda maðurinn skapstór og ákveðinn í skoðunum, hvort sem skoðanir hans eiga rétt á sér eður ei.


0 ummæli:Skrifa ummæli