laugardagur, október 28, 2006

28. október 2006 – Njósnir og spurning til gáfnaljósanna

Ég fór inn á vef Þjóðskjalasafnsins á fimmtudagskvöldið og sá fátt af viti í Stóra litla hlerunarmálinu. Þar var einvörðungu um að ræða þurrar upptalningar á einstöku leitarheimildum sem og að þeim hafi lokið. Ekkert um það hjá hverjum var leitað né hvað kom út úr þessum hlerunum. Fyrir bragðið sögðu þessar heimildir ekkert annað en að það hafi verið stundaðar símahleranir á dögum kalda stríðsins.

Það var ekkert sagt til um hjá hvaða stofnunum eða félagsamtökum var hlerað. Það var ekkert sagt um það skemmtilega mál þegar símaboð fóru fram á milli Fylkingarinnar og ónefndra stúdentasamtaka þess efnis að vegna prófa væri ekki hægt að standa í mótmælum vegna komu þáverandi utanríkisráðherra Bandaríkjanna William Rogers til Íslands í maí 1972. Lögreglan trúði eigin hlerunum og hafði lítinn viðbúnað. Því var lítill viðbúnaður lögreglu þegar hann kom í Árnagarð og mætti mótmælendum. Þá var ekkert sagt frá áralöngum símahlerunum í síma Samtaka herstöðvaandstæðinga.

Þessar upplýsingar sem birtust á vef Þjóðskjalasafnsins voru einskis nýtar, hvort heldur var fórnarlömbum, fræðimönnum eða almenningi.

-----oOo-----

Hér með kasta ég fram eftirfarandi spurningu dagsins. Hvaða bloggari leggur næst fram spurningu til handa gáfnaljósum þjóðarinnar?:
a. Ármann Jakobsson, http://skrubaf.blogspot.com/
b. Stefán Pálsson, http://kaninka.net/stefan/
c. Þórdís Gísladóttir, http://thordis.blogspot.com/
d. Þórunn Hrefna Sigurjónsdóttir, http://thorunnh.blogspot.com/

Svari hver fyrir sig, því það verða engin verðlaun fyrir rétta svarið.

-----oOo-----

Sjálf tók ég þátt í gáfnaljósakeppninni "Orð skulu standa" á Rás 1 á föstudagsmorguninn, keppni sem verður send út að viku liðinni, laugardaginn 4. nóvember klukkan 16.10. Ég var þar Davíð Þór Jónssyni til aðstoðar, en Lísa Pálsdóttir stóð eins og traust stytta við hlið Hlínar Agnarsdóttur. Frammistaða mín var vægast sagt hörmuleg, en ég hafði verið með þrálátan höfuðverk í tvo daga á undan (og er enn). Davíð bjargaði mér um botn á fyrripart og svaraði flestum spurningunum. Sjálf hikstaði ég á svörunum og held að ég verði seint látin taka þátt í svona keppni aftur. Úrslitin ekki gefin upp!


0 ummæli:







Skrifa ummæli