þriðjudagur, október 03, 2006

3. október 2006 - Tölvubréf utan úr heimi

Sum atvik í lífinu eru alltaf að koma mér á óvart.

Ég kom til Gdansk í Póllandi í fyrsta sinn á ævinni í janúar 1971. Þar höfðu þá geysað blóðugar óeirðir vikurnar á undan og enn voru skærur þegar Lagarfoss lagði að bryggju, mín fyrstu kynni af Austur-Evrópu og því sem hægrimenn kölluðu kommúnisma, en sumir vinstrimenn kölluðu sósíalfasisma. Við þessar aðstæður kynntist ég ágætlega ungum túlk sem vann við að aðstoða í samskiptum vestrænna skipverja við hafnarverkamenn og yfirvöld, Witold að nafni. Ekki var hann aðeins hjálplegur við að túlka, heldur og við að skilja svartamarkaðinn sem þá var allsráðandi sem sérstakt neðanjarðarhagkerfi í Póllandi.

Vináttan við Witold kom sér oft vel. Ef skipta þurfti gjaldeyri vissi hann alltaf réttu leiðirnar til að skipta á hagstæðara gengi en aðrir fengu og sömuleiðis vissi hann réttu aðferðirnar er drukknir sjómenn lentu í klípu á þessum slóðum. Ég sigldi oft til Póllands á árunum frá 1971 og til ársins 1974, en aldrei eftir það. Ég hélt þó bréfasambandi við Witold eftir þetta og þannig tókst mér að fylgjast ágætlega með málum í Eystrasaltsborgum Póllands árin á eftir.

Haustið 1981 urðu aftur óeirðir í Gdansk. Samstaða var komin til sögunnar og enn á ný óttuðust verkamenn um sinn hag og rugguðu bátnum. Sovétríkin fylgdust með af athygli og létu stjórnvöld í Varsjá vita, að ef ekki yrði gripið inn í af alvöru, þá myndu Sovétríkin gera það. Pólska ríkisstjórnin setti á herlög og Lech Walesa fór á bakvið rimla.

Skömmu áður fór Witold að óttast um sinn hag og með bréfaskriftum við pólsk yfirvöld, tókst mér að fá ferðaleyfi fyrir hann til Íslands sem hann nýtti sér með hraði og einn góðan veðurdag birtist hann á Íslandi þar sem hann dvaldi um átta ára skeið eða uns gamla stjórnskipulagið í Póllandi hrundi. Þá flutti Witold heim aftur, setti á stofn innflutningsverslun með íslenskar vörur og gerði það gott síðast er ég vissi. Sjálf hefi ég ekki hitt hann frá sumrinu 1989 er hann flutti til Póllands, en ég flutti til Svíþjóðar.

Á mánudagskvöldinu fékk ég óvænt tölvubréf frá frænda mínum í Englandi, frænda sem ég hefi aldrei fyrirhitt, hafði reynt að ná sambandi við, en án árangurs. Beiðnin var stutt og einföld: Geturðu sent mér heimilisfangið hjá Witold B.?

Bíddu nú hæg. Hvernig veit einhver maður í Englandi sem einungis örsjaldan hefur komið til Íslands þótt náinn ættingi sé, (og þá var ég ekki á landinu) að ég þekki einhvern mann í Póllandi sem ég hefi ekki hitt í 17 ár? Heimilisfang Pólverjans fann ég með hraði með hjálp Guðrúnar Völu, en nú bíð ég spennt að vita hvort einhver sé að tala um mig í útlöndum!

Skrýtið, ég hefi ekki fengið neinn hiksta síðustu dagana.


0 ummæli:Skrifa ummæli