föstudagur, október 20, 2006

20. október 2006 – Hækkun á hraðakstursskatti

Í kjölfar umræðu um glæfraakstur, hefur Sturla Böðvarsson samgönguráðherra ákveðið að hækka sektir vegna hraðaksturs og fjölga hraðamyndavélum auk einhverra aukarefsinga til handa þeim ökumönnum sem eru undir tvítugu. Honum finnst þetta vafalaust ógurlega sniðugt, en þessar aðgerðir Sturlu munu ekki hafa nein áhrif á umferðaröryggi. Þetta verður einungis hækkun á innheimtu ríkissjóðs vegna minniháttar hraðaksturs og verður gjörsamlega misheppnað nema fyrir ríkissjóð. Ef marka má fréttir af umræðum á Alþingi, má ætla að sektir fyrir að flýta sér upp í 70 km hraða á hinum nýja kafla Hringbrautarinnar fari úr 15.000 krónum í 25-30.000, en þar safnar ríkissjóður sektum með hjálp myndavélar. Slíkt mun einvörðungu skapa óánægju og þverrandi virðingu fyrir löggæslunni í borginni.

Til þess að ná virkilega fram bættu umferðaröryggi með refsingum, þarf að beita annars konar úrræðum. Þegar unglingar eru í kappakstri, kannski á tvöföldum hámarkshraða eða meira, þá þarf lögreglan að hafa heimild til að draga þá fyrir dómara og dæma til betrunarvistar. Hækkun sektar mun ekki hafa neitt að segja, því oft er hinn ungi ökumaður á rándýrum sportbíl sem hann fékk í afmælisgjöf á 17 ára afmælinu frá foreldrum sem vaða í peningum og veit ég nýleg dæmi um slíka unglinga sem eyðilögðu bílana með sorglegum afleiðingum.Valdi ökumaður sem grunaður er um ofsaakstur eða akstur undir áhrifum banaslysi, þarf að vera hægt að úrskurða hann í gæsluvarðhald uns málið er upplýst og sömuleiðis má velta fyrir sér hvort ekki sé ástæða til fangelsisdóms við slíkar aðstæður. Margt annað er hægt að gera, en í guðanna bænum, ekki hækka sektirnar fyrir að rétt skríða yfir sektarmörkin. Þeir sem stunda kappakstur á götunum munu einungis líta á þær sem minniháttar fórnarkostnað.

Svo má alveg bæta ökukennsluna hér á landi og kenna nýjum ökunemendum að nota stefnuljós og öryggisbelti.

-----oOo-----

Ég var að skoða nýjar myndir af hinni nýju Estelle Mærsk, systurskipi Emmu Mærsk á netinu. Ég bara get ekki annað en haldið áfram að dást að þessum nýju risaskipum:

http://www.fyens.dk/modules/xphoto/slideshow.php?slideshowid=146802


0 ummæli:







Skrifa ummæli