mánudagur, október 02, 2006

2. október 2006 – Hættir að vera hryðjuverkamenn?

Á sunnudagskvöldið var flutt viðtal Evu Maríu Jónsdóttur við Ómar Ragnarsson andstæðing Kárahnjúkavirkjunar á besta tíma sjónvarpsins og byrjaði viðtalið á spjalli um uppvöxt Ómars, fyrsta sviðshlutverkið og stríðshræðslu. Þar rifjaði Ómar upp hræðslu sína við stríð í bernsku og nefndi stríðið í Palestínu 1948:
Bernadotte greifi var drepinn í Palestínu af hryðjuverkamönnum sem þá, nota bene, voru gyðingar. Svo snérist þetta við”

Bíddu nú hægur, hvað snérist við? Hættu gyðingarnir að fremja hryðjuverk? Voru það kannski bara Palestínuarabar sem frömdu hryðjuverk eftir það? Voru það kannski ekki gyðingar sem myrtu rúmlega þúsund manns í Líbanon síðastliðið sumar? Var hryðjuverkamaðurinn Ariel Sharon kannski ekki gyðingur? Eitthvað finnst mér vanta upp á nýlega uppgötvaða pólitíska vakningu þessa ágæta fréttamanns og gamanvísnasöngvara.

-----oOo-----

Ég tók ekki þátt í rútuferð til Keflavíkurflugvallar á sunnudaginn. Mig langaði vissulega, en eftir að hafa verið á næturvakt aðfararnótt sunnudags, var baráttuandinn í lágmarki, auk þess sem málningarrúllan beið þess að ég vaknaði og héldi áfram samvinnuverkefninu, að mála húsið heima hjá mér ásamt nágrönnum mínum. Ekki get ég svikist undan samstöðunni með góðu fólki, þótt allir séu ekkert endilega sammála mér í pólitík. Hugur minn var samt með friðarsinnum og í sjónvarpi um kvöldið sá ég marga góða byltingarfélaga þar sem þeir voru staddir á auðu og yfirgefnu herstöðvarsvæðinu.

-----oOo-----

Íþróttahelgin fór örlítið betur en á horfðist í fyrstu eftir töp KR og Halifaxhrepps á laugardeginum, ásamt slæmu gengi heimsmethafans geðþekka í tímatökunum í Kína. Hann sýndi sínar bestu hliðar á sunnudagsmorguninn og sýndi það rautt á hvítu af hverju hann hefur sjö sinnum orðið heimsmeistari í Formúlunni.


0 ummæli:







Skrifa ummæli