föstudagur, október 13, 2006

13. október 2006 – Lítil sæt 120.000 tonna álverksmiðja?

“Allir á Austfjörðum voru að vonast eftir lítilli sætri 120.000 tonna álverksmiðju, ekki 460.000 tonna álverksmiðju,” sagði Kolbún Halldórsdóttir á Alþingi á fimmtudag er hún skammaðist yfir virkjanaframkvæmdum eystra í kjölfar ræðu Arnbjargar Sveinsdóttur um aukna ferðamennsku eystra í kjölfar virkjanaframkvæmda. Ég verð að viðurkenna að ég hefi aldrei séð fallega álverksmiðju, en þótt mér þyki svona verksmiðjur ljótar, má Kolbrún Halldórsdóttir hafa aðra skoðun á fegurðinni. Ég viðurkenni reyndar, að úr fjarlægð slær fallegum ljósbláum lit á álver Norðuráls á Grundartanga og er það vel, annað en sótsvört járnblendiverksmiðjan í næsta nágrenni.

Ég efa það ekki að Kolbrúnu gekk gott eitt til með orðum sínum á Alþingi og vill hún hag þjóðarinnar sem bestan. Því óska ég henni þess að draumaverksmiðjan hennar megi rísa, hvort heldur er í Helguvík eða á Húsavík.

-----oOo-----

Jón Baldvin Hannibalsson hefur löngum þótt gleðimaður hinn mesti og hefur sjaldan fúlsað við guðaveigum, séu þær í boði. Ég var á fundi í kvöld og eftir fundinn var slegið á létta strengi. Þar hafði einn fundargesta það eftir ónefndum fréttamanni, að ólíklegt hefði verið að sími Jóns Baldvins hefði verið hleraður, því eins og haft var eftir fréttamanninum:
Hver hefði nennt að hlusta á drykkjusönginn?

Mín reynsla af ætluðum símahlerunum frá þeim tíma er ég starfaði fyrir Samtök herstöðvaandstæðinga á áttunda áratugnum er hinsvegar mjög áþekk þeirri sem Magnús Skarphéðinsson lýsti í Kastljósi kvöldsins, þótt aldrei kæmist ég að neinum ríkisleyndarmálum í gegnum síma SHA.

-----oOo-----

Þegar fólk þjáist af jafnmikilli athyglissýki og ég, er alltaf gaman að sjá að fylgst er með mér, samanber Hive notandann sem setti inn komment hjá mér síðustu nótt. Á fimmtudagskvöldið var eftirlit hans með mér á þennan veg:

Returning Visits ...........15
Visit Length.................... 4 hours 50 mins 41 secs


0 ummæli:







Skrifa ummæli