þriðjudagur, október 24, 2006

24. október 2006 – Af flutningum á hvalkjöti


Það var seinnihluta marsmánaðar árið 1987 sem við komum til hafnar í Hamborg á flutningaskipinu Álafossi eins og við gerðum reglulega á tveggja vikna fresti, allt samkvæmt áætlun og verkamennirnir biðu á bryggjunni eftir að geta farið að hífa gámana í land. Skömmu eftir að losun hófst, ruddist lítill hópur fólks niður niður bryggjuna og fylgdi mun stærri hópur fréttamanna og ljósmyndara þeim eftir, því hér skyldi búin til frétt. Litli hópurinn óð beint að ákveðnum frystigámum, reif innsiglin af þeim og opnaði þá. Hófu síðan að taka nokkra freðna pakka úr gámunum og sýna þá ljósmyndurunum. Lögregla kom svo fljótlega á vettvang og gætti laga og reglu eins og ætlast var til af þeim, en eftir sátu áhöfn og verkamenn og gátu lítið að gert.

Þessi aðgerð Greenpeace stóð yfir í einhverja klukkutíma, en eftir það var hægt að halda áfram að vinna við skipið, losa það og lesta, en vesalings skipstjórinn var í því að svara símanum allt kvöldið, því greinilega höfðu Greenpeace sent út fréttatilkynningu út um heim til að lýsa “hetjudáð” sinni. Að öðru leyti gat áhöfnin lítið að gert. Einhver okkar ræddum þann möguleika að setja upp andstöðuborða við Greenpeace á maskínupappír og festa á skipshliðina, en áður en nokkuð varð úr framkvæmdum, barst stýrimanni um borð sú frétt að dóttir hans hefði skyndilega látist vegna nýrnabilunar og varð andrúmsloftið um borð mjög þrúgað það sem eftir var dagsins vegna þessarar sorgarfréttar.

Þessi fjölmiðlasýning Greenpeace kom áhöfninni á Álafossi lítt á óvart, en fjórum árum áður höfðum við vitnað það á sömu slóðum, er Greenpeace hélt því fram að Íslendingar stæðu á útrýmingu (destruktion) hvala á sama tíma og þeir héldu því fram að Rússar og Japanir stunduðu einvörðungu hvalveiðar.

Því er ástæða til að nefna þessa atburði hér og nú, að Kristján Loftsson ætlar að flytja þessa tíu hvali til Japan þar sem hann telur sig hafa markað fyrir hvalkjöt. Spurningin er bara hvernig? Það er búið að setja upp allskyns hindranir fyrir flutning á hvalkjöti á milli Íslands og Japan. Kjötið verður tæplega flutt í gegnum Evrópu og enn síður í gegnum Bandaríkin. Helsta leiðin sýnist mér vera að flytja kjötið beint á staðinn og vona að ekki verði ráðist á flutningaskipið á leið í gegnum Suez eða Panama. Það er fáum að treysta í þeim efnum!

Úrklippan er af baksíðu Morgunblaðsins 21. mars 1987 og þarf að klikka á hana til að sjá hana í læsilegri stærð.

-----oOo-----

Ég er að velta fyrir mér þessum fréttum þess efnis að fyrsti hvalurinn þótti fremur magur eftir að hafa étið á sig spik sumarlangt við Íslandsstrendur. Ætli það geti verið að hvalirnir séu orðnir svo margir að þeir séu farnir að éta fæðuna frá hverjum öðrum, eða hvort átan sé búin að yfirgefa Íslandsmið vegna hlýnunar sjávar?


0 ummæli:Skrifa ummæli