mánudagur, október 23, 2006

23. október 2006 – Schumacher og Zygmarr


Á sunnudagseftirmiðdaginn lauk einherjum glæsilegasta íþróttamannsferli sögunnar, er Michael Schumacher lagði stýrið á hilluna eftir 15 ára feril í Formúlu 1, en öllu lengri í heildina, 7 heimsmeistaratitla og 91 mótssigur í Formúlunni. Það munu líða mörg ár áður en slíkum árangri verður náð af þeim sem á eftir honum koma, ef það mun nokkurntímann ske.

Með þýskum járnaga og ítrustu kröfum til sjálfs síns hefur hann ávallt verið í fremstu röð kappakstursmanna og hefur hann auk þess sýnt heiminum að það skiptir engu máli hvar hann ber niður. Hann er og verður í fremstu röð, sama hvað hann tekur sér fyrir hendur.

Þeir íþróttamenn sem ná árangri á heimsmælikvarða og verða fremstir í sinni röð, verða ávallt fyrir mikilli öfund og jafnvel rógburði og fyrirlitningu. Er svo einnig um Michael Schumacher. Hann hefur samt sýnt það og sannað að hann hefur ávallt komið aftur sama hvað hefur gengið á. Þetta sýndi hann ágætlega í sínu síðasta móti er hann þurfti tvisvar að vinna sig upp úr vonlítilli stöðu, fyrst í upphafi keppninnar og svo aftur eftir að hann varð fyrir samstuði við Giancarlo Fisichella er sá síðarnefndi rak framvænginn í afturdekk Schumachers og eyðilagði það.

Það eru mörg ár síðan mér var það ljóst að Michael Schumacher væri að setja nafn sitt á blöð sögunnar með glæsilegum íþróttamannsferli. Í dag var punkturinn settur aftan við söguna og bókinni lokað. Nú get ég með góðri samvisku fundið mér eitthvað annað að gera á sunnudögum en að horfa á kappakstur hring eftir hring.

-----oOo-----


Meira þessu tengt. Með því að Michael Schumacher hefur kvatt Formúlu 1, blasir við sú staðreynd að jafnaldri Zygmarrs sem er einungis fjórum dögum yngri ökuskírteininu mínu, er hættur og kominn á eftirlaun. Sigmar Guðmundsson fréttamaður og bloggari af guðsnáð, hefur að undanförnu verið að gefa í skyn að Þórhallur Gunnarsson yfirmaður sinn og kollegi, sé orðinn svo gamall að það sé lífeðlisfræðilega útilokað að kalla hann ungan. Hvað skyldi þá Þórhallur segja um þá staðreynd, að jafnaldrar Sigmars Guðmundssonar eru nú hættir að keppa í Formúlunni vegna aldurs og komnir á eftirlaun, en nýi aldursforsetinn tveimur árum yngri en Sigmar Guðmundsson?


0 ummæli:Skrifa ummæli