laugardagur, október 14, 2006

14. október 2006 – Hugverkastuldur og Valgerður valkyrja

Ég var búin að semja þennan líka fína pistil um hið nýja Friðarfélag Reykjavíkur og átti einungis eftir að setja það á netið, en þá kom í ljós að einhver hafði hermt eftir Glanna glæp og stolið frá mér óbirtu hugverkinu. Ég varð því að leggja höfuðið í bleyti og semja nýjan pistil í hvelli.

-----oOo-----

Um daginn fóru Geiri harði og Valgerður valkyrja vestur um haf til að grátbiðja George Dobbljú Bush um hervernd gegn hinum vondu kommúnistum sem virðast vaða um allt á skítugum strigaskóm. Daginn eftir fengu þeir loks áheyrn hjá Hennar hátign Condólessunni. Í fréttum þá um kvöldið sást í fleiri hausa en einvörðungu þau tvö, því myndavélarnar námu Kriegsminister Bjarnason, Überadmiral Lárusson og Security Police Officer Johannessen á bakvið, parinu til varnar. Með þessa þrjá Birni að baki gekk fljótt og vel að samþykkja hervernd fyrir Ísland og vart hafði blekið þornað á pappírunum er tilkynnt var að öflugt innrásarskip yrði sent til Íslands hið bráðasta til að taka þátt í vörnum landsins uns Kriegsminister kæmi aftur til landsins.

Daginn eftir var Valgerður valkyrja komin heim aftur til að taka þátt í gleðinni við komu herskipsins, enda nóg að gera í bænum, þegar 1100 kvenmannslausir dátar eru á leiðinni í bæinn. Í viðtali við sjónvarpið viðurkenndi hún svo að vafasamt hefði verið að styðja árásina á Írak, en neitaði þó alfarið að draga til baka stuðninginn við innrásina.

Þurfum við virkilega að bíða í hálft ár til viðbótar með að draga stríðsyfirlýsingar Davíðs og Halldórs til baka?


0 ummæli:Skrifa ummæli