fimmtudagur, október 05, 2006

5. október 2006 – Hvað sagði Mogginn?

Þótt ég og Steingrímur J. Sigfússon séum langt í frá sammála í öllum málum er þó ekki hægt annað en að hrífast af ræðusnilld hans og frábærum flutningi á málum sem brenna á þjóðinni.

Við umræður um stefnuræðu forsætisráðherra á þriðjudaginn sá Steingrímur ástæðu til að minna á orð Staksteina á mánudaginn, níðs sem birt var nafnlaust undir fyrirsögninni Staksteinar. Sjálf hafði ég hvorki lesið Staksteina á mánudaginn var, né hlustað á ræðu Steingríms á þriðjudagskvöldið. Hinsvegar sá Morgunblaðið ástæðu til að minnast á ræðu Steingríms á blaðsíðu 4 á miðvikudag og í framhaldi af því leitaði ég uppi Staksteina mánudagsins. Staksteinagreinin var síst mildari en Steingrímur lýsti henni og því sé ég ástæðu til að endurbirta hana hér á eftir í heild sinni.

Áður en ég endurbirti hana með eigin athugasemdum, finnst mér þetta níð ekki vera sérlega Moggalegt. Morgunblaðið hefur tekið mun frjálslegri afstöðu á undanförnum árum en á þeim tíma sem harðlínu- og öfgamenn á borð við Björn Bjarnason réðu ríkjum á blaðinu. Því ætla ég að orð Staksteina síðastliðinn mánudag séu orð einhvers mjög biturs núverandi eða fyrrverandi ráðherra sem vildi tryggja áframhaldandi hernám Íslands. Það breytir þó ekki því að nafnlaust níð á síðum Morgunblaðsins er á ábyrgð ritstjóra þess og því verður Styrmir Gunnarsson að bera ábyrgð á því, að minnsta kosti uns hann hefur beðist afsökunar á því fyrir hönd Morgunblaðsins.


0 ummæli:Skrifa ummæli