fimmtudagur, október 12, 2006

12. október 2006 – Af leiðtogafundum og varnarmálum


Fyrir sléttum tuttugu árum síðan var ég á sjó og slapp við allt umstangið, öryggiseftirlitið og umferðarteppurnar sem fylgdu fundi þeirra kumpána Reagans og Gorbatsjovs. Um leið var gaman að fylgjast með fréttum af þessum fundi úr fjarlægð, en við komum til Englands þessa helgi á honum Álafossi í hefðbundinni áætlunarferð okkar til hafna við Norðursjó. Fréttirnar af þeim félögum, eða réttara sagt, ekkifréttirnar, sýndu svo ekki var um villst hve margar fréttir eru einskis nýtar og í besta falli yfirborðskenndar. Þarna foru heilu fréttatímarnir í að sýna einn hurðahún og bresku blöðin rifjuðu upp gamlar draugasögur frá tíma fulltrúa ensku krúnunnar í Höfða. Síðan þá hefi ég ávallt sett ákveðinn fyrirvara við fréttir af pólitík.

-----oOo-----

Þríhöfða þurs íslensku ríkisstjórnarinnar fékk loksins áheyrn hjá Condólessunni í gær vestur í Washington og eftir stuttan fund var skrifað undir eitthvað sem vonandi er ekki neitt og einskis nýtur pappír. Verra þótti mér þó að heyra að Björn Bond Bjarnason dró Geira Harða og Völu valkyrju með sér í heimsókn til stríðsglæpamannsins Donald Rumsfeld og hét hann þeim því að kasta nokkrum sprengjum á Ísland í varnarskyni næsta ár og varð þá Björn Bond voða glaður. Ég vona að Donald verði ekki maður til að framkvæma hótun sína.

-----oOo-----

Strákarnir okkar unnu litla Ísland í fótboltaleik á miðvikudagskvöldið og kom það engum á óvart, enda “varnarliðið” farið úr landi. Ég skil þó ekki af hverju þurfti að sleppa úr heilu dagskrárliðunum í sjónvarpinu. Vafalaust hafa þeir félagar Sigmar og Þórhallur verið uppteknir við að horfa á sæta stráka í nælonbrókum hlaupandi á eftir bolta og hverjum öðrum og faðmast og kyssast í hvert sinn sem mark var skorað. Svo sætt. :)


0 ummæli:Skrifa ummæli