mánudagur, maí 01, 2006

1. maí 2006 - Af fótknattleikjum enskra

Ég gleymdi víst að segja frá því í gær að keppnistímabilinu lauk á laugardaginn í kvenfélagsdeildinni í Englandi og skíttöpuðu hetjurnar okkar í Halifaxhreppi glæsilega síðasta leiknum í deildinni. Jafnframt er það fyrsti leikurinn sem þær tapa í deildarkeppninni á heimavelli í vetur. Þetta glæsilega tap kemur dálítið seint, því hetjurnar okkar enduðu í fjórða sæti eins og búist var við og þurfa því að leika í umspili við frjálsíþrjóttadeild Gránufjelagsins um sæti í langneðstu deild.

Gránufjelagið hefur sýnt sig að vera algjört spútniklið og því viðbúið að þeir mali hetjurnar okkar í þessum tveimur leikjum sem fara fram 6. og 10. maí. Ég get þó ekki lofað áframhaldandi þátttöku þeirra í kvenfélagsdeildinni fyrr en miðvikudagskvöldið 10. maí klukkan 20.30.

Ef heimasíða Halifaxhrepps er skoðuð sjást nokkrar af hetjunum okkar á mynd að fagna úrslitum dagsins.

-----oOo-----

Annað lið stefnir hraðbyri að þátttöku í kvenfélagsdeildinni og er þar hið sigursæla lið Wimbledon sem stofnað var 2002 eftir að Kjell Inge Rökke kom gamla Wimbledonliðinu í úlfakreppu með norskum þjálfara. Eftir slæmt gengi liðsins í nokkur ár, var það atað tjöru og fiðri og rekið úr bænum. Sem dónum sæmir, settist það að í Milton Keynes og hefur kennt sig við þann bæ allar götur síðan. Eftir sátu hnuggnir aðdáendurnir og bölvuðu norsku útgerðarauðvaldi. Þeir risu þó úr öskustónni, bitu í skjaldarrendur og stofnuðu nýtt WimbleDónalið, hafa flýtt sér upp um deildirnar og eru nú í 4. sæti 7. deildar og þurfa umspil við Fisher gamla um áframhaldið..

WimbleDónarnir munu væntanlega eiga auðvelda leiki framundan í umspili um gegn frjálsíþróttadeild Fishers gamla sem er þekktur fyrir allt annað en fótbolta svo þetta ættu að verða tveir auðveldir sigrar og svo beina brautin í langneðstu kvenfélagsdeild.

-----oOo-----

Flottasta spútnikliðið í Englandi þessa dagana er vafalaust Fótboltasamvinnufélagið Sameining Mannshestanna (United of Manchester). Liðið var stofnað 30 maí 2005 eftir að braskari nokkur frá Nýlendunum að nafni Malcolm Glazer keypti meirihluta í hinu fyrrum frækna toppliði Sameinuðum Mannshestum fyrir þrjátíu silfurpeninga. Þar með voru peningarnir farnir að stjórna meiru en áhuginn, rétt eins og hjá hinu rússneska Seltjörn
.

Fundur sem var haldinn til að mótmæla Júdasi og silfurpeningunum þrjátíu varð fljótt að vakningu að nýju félagi. Þúsund manns mættu á stofnfund og skráðu sig fyrir hlut í samvinnufélaginu, en skilyrði þess að eignast einn hlut í félaginu var að greiða að lágmarki eitt pund í stofnfjársjóð. Það var heimilt að greiða meira, en hver einstaklingur fékk einungis einn hlut að hámarki.

Nú eru liðnir ellefu mánuðir frá stofnfundi og fyrsta dollan komin í hús, en Sameiningin gjörsigraði deildina sem hún tók þátt í nú í vetur, hina svokölluðu Langlanglangneðstu norðvesturdeild. Að auki var slegið aðsóknarmet í utandeildarleikjum 23 apríl s.l., er liðið tapaði naumlega fyrir liði Stóru-Héraskógarborgar undir vökulum augum 6023 áhorfenda sem flestir voru á bandi okkar manna, en stærsti sigurinn var 10-2 gegn Gabriel erkiengli 10. desember s.l.

Fótboltasamvinnufélagið Sameining Mannshestanna mun þurfa að spila í næstneðstu Norðvesturdeild næsta vetur áður en farið verður að herja á efri deildir og síðarmeir vinna nýlenduherrana í Sameinuðum Mannshestum, Rússana í Seltjörn, Lýsisbrákina í Lifrarpolli og Rassana í Rassenal.

-----oOo-----

Svo fá allir verkalýðssinnar baráttukveðjur í tilefni af baráttudegi verkalýðsins.


0 ummæli:Skrifa ummæli