laugardagur, maí 06, 2006

6. maí 2006 - Kveðja frá Goldfinger

Það var stórt hvítt umslag í póstkassanum mínum er ég tæmdi hann á föstudagsmorguninn. Forvitnilegt hugsaði ég með mér og reif það upp um leið og ég kom upp. Þetta reyndist þá vera skólablað Vélskólans á Akureyri (Verkmenntaskólinn á Akureyri vélstjórnarbraut), en slík skólablöð eru gjarnan send til allra meðlima Vélstjórafélags Íslands, hvað sem það nú heitir á þessum síðustu og verstu tímum.

Auk sjálfs skólablaðsins sem var í umslaginu, fylgdi einnig almanak sem vafalaust hefði átt að sendast út til móttakenda um áramót, en skólablaðinu hefur greinilega seinkað eitthvað og því fór það ekki út með blaðinu fyrr en nú í byrjun maí. Almanakið reyndist vera sending frá nektarstaðnum Goldfinger og prýtt myndum af fáklæddum meyjum.

Ekki veit hvort hinar fáklæddu meyjar eru starfsmenn Goldfinger, en þó finnst mér það fremur ólíklegt. Að minnsta kosti var engin mynd af eigandanum Ásgeir Davíðssyni og engin hinna fáklæddu kvenna stóð í uppvaski á hinum umtalaða veitingastað á myndunum.

Það er ekki langt síðan Skólafélag Vélskóla Íslands, hvað sem það nú heitir á þessum síðustu og verstu tímum, hélt skólaball á Hallveigarstöðum í Reykjavík, þar sem nektardansmeyjar frá Goldfinger voru fengnar til að skemmta nemendum, sumum hverjum undir lögaldri. Þetta var þess verra fyrir þá sök að Hallveigarstaðir eru í eigu kvenréttindahreyfingarinnar og ætti slíkur staður því sístur allra að vera vettvangur slíkrar uppákomu. Þetta uppátæki var harðlega gagnrýnt af stjórnendum Fjöltækniskólans eftir að það fréttist út og lak til fjölmiðla. Nú er farið að nýta nemendur á Akureyri til svipaðrar kynningar á nektarstaðnum Goldfinger.

Ég veit að Ásgeir Davíðsson vill allt gera til að stytta ungum strákum stundir sem eru í hvíld frá lífsins ólgusjó sitjandi á skólabekk, en það er óþarfi að senda okkur hinum auglýsingar af þessu tagi. Við þurfum ekkert á nektardansmeyjum að halda. Það væri kannski betra að senda okkur næst almanak með myndum af þessum ellefu nemendum á vélstjórnarbraut VMA fáklæddum og svo gæti skólameistarinn prýtt tólftu myndina í desember.


0 ummæli:Skrifa ummæli