mánudagur, maí 29, 2006

29. maí 2006 – Mistök í kjörstjórn og fyrstu kosningasvikin

Eins og ég hefi tekið fram áður, var ég að vinna í kjörstjórn á laugardaginn, þar sem ég sat sem “oddviti” þeirrar kjördeildar sem ég vann í. Vinnan gekk að mestu vel fyrir sig og var að mörgu leyti ánægjuleg, enda var ég þarna að kljást við mína fyrrum nágranna. Ég þekkti mörg andlit, oftast af góðu einu og var gaman að hitta kunnugleg andlit, þótt ég gætti þess vandlega að spyrja alla að skilríkjum formsins vegna, einnig þá sem ég þekkti. Þó kom fyrir að einn og einn kjósandi væri með leiðindi og reyndum við að leiða þau framhjá okkur um leið og við reyndum að beita sveigjanleika, þó án þess að víkja um of frá reglunum.

Ég minnist eins kjósanda sem kom að kjósa og þóttist vera illræmdur pulsusali og neitaði að framvísa skilríkjum. Ég gekk út frá því sem vísu, að enginn væri svo vitlaus að vilja vera þessi ónefndi pulsusali, neitaði manninum um kjörseðil og kallaði til yfirmanninn á svæðinu. Yfirmaðurinn kom og staðfesti við okkur að sá nærstaddi væri þessi umræddi pulsusali. Fékk hann síðan að kjósa og hvarf snúðugur á braut. Ég svaraði í sömu mynt og sleppti því að þakka manninum fyrir þátttökuna í kosningunum.

Eftirá hugsaði ég með mér að ég hefði sennilega gert mistök. Það er auðvitað enginn svo vitlaus að þykjast vera þessi illræmdi pulsusali nema hann sjálfur og því staðfesti hann hver hann væri með monti sínu og þvermóðsku.

--o--

Ég fékk ekki heiðurinn af að taka á móti brúðhjónum sem mættu á kjörstað í fullum skrúða, en þau lentu í annarri kjördeild mér óviðkomandi. Þar var þá allnokkur bið og þurftu þau að standa fyrir utan kjörklefann í allt að tuttugu mínútur í biðröð áður en þau komust að til að kjósa. Þarna fannst mér kjörstjórn umræddrar kjördeildar gera lítil mistök, því allir nálægir hljóta að taka tillit til þess að fólk sem mætir á kjörstað á einum stærsta degi lífsins, eigi að njóta forgangs.

--o--

Þegar kjörstaður opnaði á laugardagsmorguninn voru fjöldi sjónvarpsvéla í gangi og myndavélar á lofti, enda von á forsprakka eins framboðsins á hverri stundu. Ég þóttist vita hvað væri í gangi og sminkaði mig alveg eins og sjónvarpsstjarna áður en ég stillti mér upp í kjördeildinni og hóf að undirbúa kjörfund. Upptökumaður sjónvarpsins virtist líka vera alveg sérlega hrifinn af mér og myndaði mig í bak og fyrir þar sem ég var að telja atkvæðaseðla. Í fréttum kom ég svo hvað eftir annað fyrir í mynd á Stöð 2, en ríkissjónvarpið lét sér nægja að sýna mynd af mínum vinnulúnu höndum með þrjár brotnar neglur og áberandi exem vera að telja atkvæðaseðla!

-----oOo-----

Nokkru fyrir kosningar var ónefndur forsprakki eins framboðsins í Árborg (nú kölluð Tuborg) tekinn fullur eftir að hafa keyrt niður ljósastaur og í iðrun sinni lofaði hann kjósendum því að koma ekki nálægt pólitík fyrr en búið væri að dæma í máli hans og hann hefði tekið út sína refsingu. Það var vart búið að telja atkvæðin eftir kosningarnar sem umræddur stútur tilkynnti kjósendum, að hann hefði unnið svo góða kosningu að hann þyrfti ekki að efna kosningaloforð sitt. Þetta finnst mér lélegt og sýnir vel hvern mann Eyþór Arnalds hefur að geyma.

-----oOo-----

Einn ágætur móðurbróðir minn, búsettur í Svíþjóð, fékk snert af heilablóðfalli fyrir nokkru síðan. Ég hefi lítillega fylgst með fréttum af honum, en hringdi í hann á sunnudaginn vitandi að hann var kominn heim af spítalanum. Hann var þá hinn hressasti og kjaftaði á honum hver tuska, þó örlítið þvoglumæltur. Meðal annars nefndi hann að hann hefði komist alveg að Gullna hliðinu og bankað, en Lykla-Pétur hefði ekki viljað hleypa sér inn.


0 ummæli:Skrifa ummæli