þriðjudagur, maí 02, 2006

3. maí 2006 - Guðmundur Gunnarsson ....

....formaður Rafiðnaðarsambandsins virtist reiður í gær og kvartaði sáran í “Blaðinu” yfir því að öfgahópar hafi lagt 1. maí undir sig. Það var kominn tími til að hann viðurkenndi opinberlega öfgafullan hægriáróður sinn sem meðal annars felst í áralangri baráttu gegn 1. maí sem baráttudegi verkalýðsins. Með stöðugum áróðri hefur honum tekist að gera fjölda fólks afhuga baráttunni og hefur þannig tekist að fá marga, sem þekkja ekki stéttabaráttu, til liðs við sig. Því getur Guðmundur Gunnarsson kennt sjálfum sér um lélega þátttöku fólks í kröfugöngu og baráttufundi dagsins.

Ég heyrði í manni einum í síðdegisútvarpi Bylgjunnar í gær þar sem hann sagði eðlilegt að svo fáir mættu í kröfugönguna því þessir fáu verkamenn sem eftir væru, væru útlendingar. Þvílík viska. Ætli þessi maður hafi lært fræðin sín af Guðmundi Gunnarssyni?

-----oOo-----

Norðmenn og Bandaríkjamenn hafa löngum haft með sér nána öryggissamvinnu, eða allt frá þeim tíma er seinni heimsstyrjöldinni lauk. Nú er svo komið að þeir eru ekki lengur í náðinni hjá George Dobbljú Bush. Þegar maður heyrir hvernig þessi bjáni hegðar sér gagnvart vinum sínum um leið og þeir leggja af þrælsóttann og byrja með sjálfstæða utanríkisstefnu eftir fjögurra ára sleikjuhátt við Bush, þá fer maður að spyrja sig þess hvers virði þessi vinátta við Bandaríkin er í reynd.

Það var sannarlega kominn tími til þess að Norðmenn með Jens Stoltenberg í broddi fylkingar sýndu Bandaríkjamönnum hvers þeir eru megnugir og óskandi að Íslendingar fylgi í kjölfarið.

-----oOo-----

Í gær tók ég það að mér að skreppa með bíl í dekkjaskipti. Fyrst þurfti ég að fara til fyrirtækisins sem átti bílinn og sannfæra mig um að sumardekkin væru týnd eftir flutninga og því þurfti að kaupa ný sumardekk. Eigandinn vísaði mér á ónefnt hjólbarðaverkstæði og hringdi þangað til að fullvissa sig um að þeir ættu til nýja hjólbarða og síðan ók ég þangað sannfærð um að verkið tæki aðeins örfáar mínútur.

Er þangað var komið voru tveir bílar á undan mér, einn fólksbíll og einn lítill vörubíll og báðir biðu án þess að neitt væri verið að gera. Ég beið einnig. Eftir klukkutímabið var loks búið að skipta um undir
fólksbílnum og ég komst inn með bílinn sem ég var á. Það gekk vel að kippa dekkjunum undan og svo byrjaði biðin. Nýju dekkin koma eftir tíu mínútur sagði mér verkstæðisformaðurinn og ég beið. Eftir langa bið kom sendibíll með dekk undir vörubílinn og fór svo að sækja mín dekk. Eftir hátt í þriggja tíma bið fékk ég bílinn loks tilbúinn og tók ævintýrið fulla þrjá tíma.

Ég ætla ekki að segja hvert hjólbarðaverkstæðið var, vitandi að starfsfólkið á staðnum reyndi sitt besta að flýta hlutunum. Þetta mætti kalla stjórnunarvandamál. Það veit ég að starfsfólk Gummívinnustofunnar á Réttarhálsi myndi aldrei láta slíkt spyrjast út um sig og mættu sum hjólbarðaverkstæði taka þá sér til fyrirmyndar.

-----oOo-----

Loks fær stóra systir hamingjuóskir með afmælið. Aldur ekki uppgefinn!


0 ummæli:Skrifa ummæli