miðvikudagur, maí 10, 2006

10. maí 2006 - Viðeyjarsafn

Ég verð að viðurkenna að eftir því sem umræðum um að flytja Árbæjarsafn út í Viðey miðar lengra, verður hugmyndin þess vitlausari. Þá er ég ekki einungis að tala um hugmyndina um að fleyta húsunum yfir sundið, heldur alla hugmyndina í heild sinni.

Árbæjarsafn hefur aldrei haft úr miklum fjármunum að spila. Þvert á móti hefur það ávallt verið í fjársvelti. Nú virðast allt í einu til milljarðar til að flytja safnið í heilu lagi út í Viðey. Hvaðan eiga þessir peningar að koma? Á kannski að sækja þá í sömu vasana og peningana fyrir smíði og uppsetningu á ljósatyppi Joko Ono?

Versti þátturinn er þó eftir. Með því að flytja Árbæjarsafn út í Viðey, mun stórlega draga úr aðsókn að safninu. Það verður hvorki hægt að aka þangað né ganga eða hjóla þangað. Það verður að fara þangað með báti. Þá daga sem vont er í sjóinn kemur enginn gestur á safnið. Sólríka sumardaga koma fáir gestir vegna þeirrar hindrunar sem fylgir því að þurfa að kaupa sér far með báti út í eyjuna áður en hægt verður að kaupa sig inn á sjálft safnið.

Ef fólk vill endilega nýta austurhluta Viðeyjar, væri nær að byggja þar lítið vistvænt þorp smáhúsa á einni hæð þar sem reynt yrði að skapa lítið samfélag með áherslur á orkusparnað og náttúruvernd.

-----oOo-----

Svo lauk gönguhópurinn við að ganga Álftanesið. Næst verða fjöll lögð að velli.


0 ummæli:







Skrifa ummæli