föstudagur, maí 26, 2006

26. maí 2006 - Sjóræningjar?


Það eru erlendir togarar að fiska á Reykjaneshrygg rétt utan við 200 mílna lögsögu Íslands. Íslensk stjórnvöld tala ávallt um þessa togara sem sjóræningja af því að þeir eru skráðir í ríkjum sem ekki eru aðilar að fiskveiðiráði Norðausturatlantshafsins. Sjálf myndi ég gæta orða minna ef ég þyrfti að gefa út yfirlýsingar á borð við yfirlýsingar Landhelgisgæslunnar.


Nokkur þessara skipa eru skráð með heimahöfn í örríkinu Dominica, en eyja þessi er í Karabíska hafinu, skammt frá annarri eyju sem heitir Antigua. Eyjarnar Antigua og Barbua er svo sérstakt örríki og þar eru nokkur skip Eimskips með heimahöfn sem og fleiri skip sem sigla reglulega á milli Íslands og annarra landa. Þess má geta að hvorugt þessara örríkja eru meðlimir í nefndu fiskveiðiráði. Stjórnvöldum þessara örríkja er hjartanlega sama um gámaflutninga eða fiskveiðar í Atlantshafi á meðan umrædd skipafélög greiða nokkrar krónur í skráningargjöld til örríkisins. Því sjá íslensk og rússnesk sjóræningjafyrirtæki (svo notuð séu orð Landhelgisgæslunnar) sér leik á borði og skrá skip sín á þessum eyjum.

Sá er þó munur á þessum fyrirtækjum, að togararnir eru að útrýma karfa hér í samkeppni við í óþökk íslenska stjórnvalda, en hin eru að útrýma íslenskri farmannastétt með stuðningi íslenskra stjórnvalda.

-----oOo-----

Eitthvað heyrði ég ávæning af frétt þess efnis í gær, að Halldór Ásgrímsson ætlaði að segja upp varnarsamningi Íslands og Bandaríkjanna ef Bandaríkjamenn fara á brott með her sinn. Þetta þótti fréttastofu útvarpsins mikil frétt. Það sem mér þykir frétt í þessu sambandi er það að Halldór skuli ekki enn skilja að herinn er að fara.

Einhver hefði orðað þetta sem að of seint væri að grípa fyrir rassinn þegar kúkurinn er dottinn.


0 ummæli:Skrifa ummæli