laugardagur, maí 27, 2006

27. maí 2006 - Köttur uppi í tré

Ég þurfti að fara upp í Fellahverfi á föstudagskvöldið til að gefa ketti vinkonu minnar sem stödd er í Englandi þessa dagana. Þar sem ég átti enn eftir að ljúka göngukvóta vikunnar, hleypti ég kisunni Hrafnhildi út í garð um leið og ég rölti af stað. Gangan gekk vel og ég hafði af að komast upp í Rjúpufell, gaf ketti vinkonunnar og hélt svo til baka með útúrsnúningum til að lengja göngutúrinn upp í tvo tíma.

Er ég kom í garðinn heima tók ég upp lyklakippuna mína og hristi hana til að láta Hrafnhildi vita að ég væri komin heim. Nágrannar mínir kölluðu þá í mig og bentu mér upp í tré. Þar sat Hrafnhildur litla ofarlega í hárri ösp og þorði ekki niður. Að sögn nágrannanna hafði lítill hundur mætt á svæðið og byrjað að gelta að henni og það reyndist nóg til að Hrafnhildur klifraði hratt og vel upp í næsta tré og þar hélt hún sig lafhrædd og vældi ámáttlega. Ekki var það til að bæta sálarástand kisunnar að ein nágrannakisan, lítil og horuð fór upp í tréð og hoppaði allt í kringum mína án nokkurra erfiðleika en Hrafnhildur litla, spikfeit og sælleg, þorði sig hvergi að hræra.

Ekki gat ég skilið vesalings kisuna eftir upp í tré og leitaði að stiga en fann engan. Þá kallaði ég í víkingasveit lögreglunnar en sá fljótt að þeirra góðu ráð til að ná kisu niður væru of róttæk fyrir litlar kisur. Að lokum ákvað ég að fara inn og í kvöldbaðið í von um að kisa fyndi sér leið niður á meðan ég væri fjarverandi.

Á meðan ég lét renna í baðið, labbaði ég út á svalir og hristi lyklakippuna. Þá tók Hrafnhildur litla við sér og hoppaði niður um tvær greinar. Ég hristi betur og kisa þokaðist niður um eina grein í viðbót. Þegar baðið var tilbúið, vantaði enn bara nokkra metra í að kisa kæmist alveg niður og enn stefndi hún niður á við. Ég fór niður til að vera tilbúin þegar kisa kæmist alla leið, en er ég kom niður stigaganginn mætti ég einni nágrannakonunni með kisu litlu í fanginu. Þar urðu auðvitað hinir mestu fagnaðarfundir og fengu báðar kisurnar aukaskammt af rækjum fyrir svefninn.

Miðað við áhuga ýmissa nágranna minna sem eiga aðgang að garðinum, að hrakförum Hrafnhildar litlu, fæ ég á tilfinninguna að ég eigi góða granna.


0 ummæli:Skrifa ummæli