miðvikudagur, maí 31, 2006

31. maí 2006 - Rusl hjá Bessastöðum

Litli gönguhópurinn minn gekk norðanvert Álftanesið á þriðjudag í suðaustan strekkingi og skúrum. Ekki beint heppilegt veður, en við vorum ekkert að leita að góðu veðri, heldur lifandi náttúru. Ólafur var ekki heima og hvergi sáum við Dorrit sinna æðarvarpinu á meðan bóndinn var fjarverandi. Hinsvegar sáum við til bötlersins vera að undirbúa að merkja fleiri kolluhreiður en þau sem þegar höfðu verið merkt. Ekki veitti af því mörg hreiðrin voru ómerkt og auðvelt að valda skaða ef ekki er gætt ítrustu varkárni eins og við erum reyndar þekktar fyrir.

Tvennt í þessari gönguferð okkar fannst okkur vera hvimleitt að sjá og heyra. Annað var sóðaskapurinn. Það var mikið af allskyns rusli í fjörunni sem og langt inni á túnum Bessastaðabóndans og nágranna hans. Þarna voru tómar plastflöskur, leifar af veiðarfærum, plasteinangrun eftir einhverjar byggingaframkvæmdir og allskyns annað rusl sem ég nenni ekki að telja upp. Innan um ruslið voru svo æðarkollurnar á hreiðrum sínum og hreyfðu sig varla er við gengum varlega framhjá. Það mætti alveg taka aðeins til á túnum ef einhver þjóðhöfðinginn kemur í opinbera heimsókn. Það mætti kannski senda þá út á tún með tóma plastpoka og biðja þá að hjálpa til við ruslatínsluna.

Ég skal viðurkenna að það er ekki heppilegt að senda krakkana í unglingavinnunni út á túnið að hreinsa til strax eftir skólann vegna varptímans, en það mætti alveg láta tiltektir á svæðinu verða verkefni þeirra síðustu vikuna áður en þau hverfa aftur til skólans í haust. Ekki veitir af.

Annað var einnig ámælisvert þótt ekki verði Álftnesingum kennt um. Það er hávaðinn frá Vatnsmýrarflugvelli. Það var talsverð umferð á flugvellinum á meðan við vorum í göngutúrnum. Gamlar flugvélar, nýlegar flugvélar, stórar flugvélar og litlar flugvélar. Þrátt fyrir að við séum veikar fyrir hugmyndinni um Lönguskerjaflugvöll, verður okkur frekar skiljanlegt en áður því Álftnesingar vilja ekki flugvöll á Löngusker. Nægur er hávaðinn samt. Þar með er ekki sagt að Reykvíkingar eigi að sitja uppi með hávaðann um aldur og ævi. Kannski er einfaldast að senda innanlandsflugið suður á Miðnesheiði. Vilhjálmur borgarstjóri hlýtur að geta samið við kollega sinn og flokksfélaga um að taka við hávaðanum.

P.s. Ég er búin að ganga 40 km á þremur dögum í frægu átaki mínu sem kallað er: “Brennum aukakílóin”

-----oOo-----

Eftir kosningarnar lýsti Eyþór Arnalds því yfir að vegna góðs árangurs í kosningunum, þyrfti hann ekki að efna fyrri loforð sín um að halda sig frá pólitík uns hann hafi fengið sinn dóm og tekið út refsingu fyrir refsiverða háttsemi sína. Nú er ljóst að honum hefur snúist hugur og ætlar ekki að sinna sveitastjórnarmálum í Árborgarhreppi fyrr en að ári liðnu er hann fær aftur ökuskírteinið sitt. Það er vel og mættu aðrir í svipaðri aðstöðu gera slíkt hið sama.


0 ummæli:Skrifa ummæli