sunnudagur, maí 14, 2006

14. maí 2006 - Björn Ingi, Silvía Nótt og Hömmerinn


Eins og lesendur mínir vita, er ég mjög höll undir Framsókn í borgarmálum og hefi bæði leynt og ljóst stutt leiðtoga vorn til allra góðra verka á þeim tíma sem liðinn er frá því ég fór að fylgjast með honum stjórna nokkrum smáveitum uns honum hafði tekist að gera þær að stórfyrirtæki á íslenskan mælikvarða. Þá hefur hann sýnt af sér ákaflega ljúfa framkomu í garð okkar smælingjanna og öðlast traust okkar og virðingu. En nú er öldin önnur, því senn kveður hann vettvang borgarmálanna og ekki verður féleg framtíðin án hans.

Í myrkasta svartnætti glittir ávallt í ljósið og erfðaprinsinn kom, sá og sigraði. Það geislaði af honum, því hér var maður kominn sem er vanur tigninni af æðstu stöðum, forsætisráðuneytinu og utanríkisráðuneytinu. Það var farið í kosningabaráttu svo öll þjóðin mætti njóta birtunnar af erfðaprinsinum, búin til ný slagorð og gamla Framsókn með fjósalyktina þurrkuð út. Ekkert var sparað til kynningar á hinum nýja leiðtoga og í stað fjósalyktarinnar, kom EXBÉ og hertrukkur tekinn á leigu til að flytja frambjóðendur til hernaðar gegn pólitískum andstæðingum.

Ég fór að lesa mig til um herbíl þann sem EXBÉ notar í kosningabaráttunni í Reykjavík og er af gerðinni Hummer H2 og velmerktur framboðinu á báðum hliðum. Hann er 2,06 metrar á breidd og kemst fyrir bragðið ekki fyrir í venjulegu bílastæði og verður því að nota stæði fyrir vörubíla eða þá fatlaðrastæði ef ekkert vörubílastæði er í nágrenninu. Til samanburðar má geta þess að hinn vesældarlegi forstjórajeppi Toyota LandCruiser 100 er sem lélegt landbúnaðartæki við hliðina á þessum glæsivagni, 1,94 metrar á breidd og minn vinstrigræni eðalvagn er 1,73 metrar á breidd.

Eiginþyngd EXBÉ Hömmersins er 2,9 tonn enda ætlaður til stríðsreksturs og verður að geta haldið frambjóðendunum heilum þótt á þá sé ráðist af ofurefli andstæðinganna. Forstjórajeppinn frá Toyota er aðeins 2,32 tonn að eiginþyngd og eðalvagninn minn um 1,4 tonn. Þá eyðir stríðsvagninn allt að 29 lítrum á hundraðið í innanbæjarakstri að mati Wikipedia.

Ég fann nýlegan Hummer af EXBÉ gerð til sölu á netinu á 8.143.000 krónur og þar staðhæft að fullt verð fyrir slíkan vagn væri um ellefu milljónir. Glænýr Toyota LandCruiser 100 með bensínvél kostar litlar 7.400.000 krónur. Ef einhver vill borga mér 400.000 krónur fyrir minn vinstrigræna Subaru læt ég hann frá mér án þess að hika. Hann er hvort eð er hvorki útbúinn til jöklaferða né til að verjast vondum mótmælendum. Að auki kemst ég allra minna ferða á reiðhjóli með körfu á stýrinu fyrir innkaupin.

Það er ekki hægt annað en að fyllast lotningu og aðdáun þegar slíkur frambjóðandi sem erfðaprinsinn fer um göturnar á Hömmer H2. Þarna fer maður sem kann sig og lítur niður á auvirðileg atkvæðin sem kjósa Vinstrigræna, krata eða íhaldið, svo ekki sé talað um þessi fatlafól sem dirfast að leggja smádruslunum sínum í stæði sem ættu bara að vera fyrir alvöru stjórnmálaleiðtoga á Hömmer. Því ætti líka fólk að skammast í Birni Inga fyrir að vera mikill stjórnvitringur? Engum dettur í hug að atyrða Silvíu Nótt fyrir að vera súperstjarna og væntanlegur sigurvegari Júróvisjón. Af hverju ætti þá að skamma frekar væntanlegan sigurvegara borgarstjórnarkosninganna, súperleiðtogann Björn Inga?

Ég vænti þess að Björn Ingi fagni Silvíu Nótt er hún kemur til Keflavíkur með sigurlaunin úr Júróvisjón og aki með hana á Hömmernum ásamt fylgdarliði til höfuðborgarinnar, hún hjálpi honum að vinna borgarstjórnarkosningarnar og á svo von á að þau verði heitasta parið á síðum Séð og heyrt og Hér og nú í allt sumar.

Fyrirgefðu Bingi minn, bæði að ég skuli hafa rekið þig úr ætt við mig og eins á vondum orðum mínum í þinn garð í pistli þessum!


0 ummæli:







Skrifa ummæli