sunnudagur, maí 28, 2006

28. maí 2006 – Af vinnu við kosningar


Ég var að vinna á kjörstað allan laugardaginn, meira og minna sambandslaus við umheiminn. Ekkert útvarp, ekkert sjónvarp, engin dagblöð og enginn kosningaáróður. Það hefði verið í lagi ef greitt hefði verið sæmilega fyrir þessa fimmtán tíma vinnu. Svo var þó ekki. Launin eftir skatta á slíkum degi nægja vart fyrir salt í grautinn þann daginn sem kosningarnar standa.

Þegar vinnunni lauk klukkan 23.00 var ég komin með upp í kok af pólitík, kannski ekki pólitík beint, en alveg örugglega kjósendum sem þó höfðu ekkert til sakar unnið annað en að vera leiðinlegir. Á sama tíma var ég búin að missa af öllu skemmtilegu í bæjarlífinu. Ýmsar þær skemmtilegu uppákomur sem fylgja kosningum komu mér ekki til góða af því að ég var bundin inni á kjörstað allan daginn. Þá er þreytan eftir slíkan dag slík að skriðið er heim í stað þess að fara á kosningavökur. Ég hafði ekki einu sinni áhuga fyrir að skreppa á Næstabar á kosningavöku pólitískra munaðarleysingja.

-----oOo-----

Eftir að heim var komið bárust mér fréttir af eldsvoða um borð í Akureyrinni EA-110 þar sem tveir menn fórust. Eldsvoði um borð í skipi á hafi úti er eitthvað það versta sem hægt er að lenda í til sjós og fréttir af þessu hræðilega slysi fylla mig vanlíðan. Fjölskyldur þessara tveggja áhafnarmeðlima eiga samúðarkveðjur mínar allar sem og allir eftirlifandi skipverjar og aðstandendur þeirra.


0 ummæli:Skrifa ummæli