föstudagur, maí 19, 2006

19. maí 2006 - Vinstrigrænir, kertaljós og Silvía Nótt

Eins og lesendur mínir vita, er ég mjög höll undir Vinstri hreyfinguna, grænt framboð í borgarmálum og hefi bæði leynt og ljóst stutt félaga vora til allra góðra verka á þeim tíma sem liðinn er, síðan ég óx úr grasi og varð að fallegu blómi að mínu áliti. Vinstrigrænir hafa ávallt sýnt af sér mjög skemmtilegan baráttuanda með okkur smælingjunum og öðlast traust okkar og virðingu. En nú stefnir allt til verri vegar, því R-listinn hefur ákveðið að kveðja tilvist sína rétt eins og Alþýðubandalagið, blessuð sé minning þess og senn verðum við kjósendur R-listans orðin pólitískt munaðarlaus rétt eins og kjósendur Alþýðubandalagsins á sviði landsmálanna.

Stefna Vinstri grænna er skýr. Við skulum útrýma uppistöðulónum og álverum. Síðan skulum við útrýma stórum bensíngleypandi jeppamonsterum á borð við Hömmer og LandCruiser. Síðan fá minni farartæki að sigla sinn sjó, vinstrigrænir Subaru, auðvaldsseldar Toyotur. Loksins Mikrur og Póló. Fáum okkur reiðhjól. Framtíðin er kertaljós. Við þurfum að lifa í sátt við náttúruna og slökkvum ljósið. Það þarf að spara rafmagnið.

Að sjálfsögðu skal halda áfram að skattleggja bílana. Hvernig væri t.d. að styðja þá hugmynd að skattleggja bíla sem leggja í bílastæði borgarinnar? Einhvernveginn verður að greiða kostnaðinn við ókeypis leikskóla.

Ég er að velta fyrir mér hvað minn vinstrigræni Subaru sem vegur 1,4 tonn myndi vega mikið ef ekkert væri álið sem framleitt er í álverum?

-----oOo-----

Ég ætlaði að finna pláss fyrir Árna Þór Sigurðsson í Hömmernum hans Björns Inga þegar hann fer til Keflavíkur að sækja Silvíu Nótt. Þegar ég ætlaði að kalla í hann, var hann farinn til Keflavíkur því Silvía kemur heim fyrr en ætlað var eftir ætlaðan sigur í Júróvisjón. Ekki spyrja mig hvað skeði því hún ætlaði að vinna Júróvisjón. Kannski er þetta svipaður sigur og þegar Páll Óskar vann Júróvisjón án þess að fá nokkurt atkvæði.

-----oOo-----

Með þessum pistli um Vinstrigræna, hefur mér tekist að fá öll framboð í borginni upp á móti mér og orðin álíka vinsæl meðal flokksbundinna kjósenda og Silvía Nótt á meðal aðdáenda Júróvisjón. Nú get ég tekið þátt í kjörstjórn eftir rúma viku án þess að vara grunuð um að styðja eitt framboð fremur en annað.


0 ummæli:







Skrifa ummæli