þriðjudagur, maí 30, 2006

30. maí 2006 - Að skjóta fyrst og spyrja svo


Á mánudag var myndaður nýr meirihluti í Reykjavík. Að venju og eins og búast mátti við féllust Íhald og Framsókn í faðma og verða væntanlega órjúfanlegir í hjónabandinu næstu fjögur árin eða þar til Framsóknarflokkurinn þurrkast endanlega út af kortinu.

Ég fór að skoða mátt Framsóknarflokksins síðustu fjóra áratugi eða frá 1962. Flokkurinn reyndist vera með tvo og í einhverjum tilfellum með þrjá borgarfulltrúa á sjöunda og áttunda áratugnum og komst upp í 17.2% fylgi í kosningunum 1970. Þó sýnist mér sem flokkurinn hafi byrjað að dala 1978 og þá farið í fyrsta sinn niður fyrir 10 prósent mörkin þegar Alþýðubandalagið vann sinn fræga stórsigur og fékk fimm borgarfulltrúa. Eftir það mældist flokkurinn með 9.5% 1982, 7.0% 1986 og 8.3% 1990. 1994 tók svo Framsókn þátt í R-listanum og fékk eftir það tvo fulltrúa þótt þeir ættu í reynd ekki að fá nema einn fulltrúa miðað við fylgið. Nú hefur fylgishrun Framsóknarflokksins í Reykjavík verið staðfest með talningu atkvæða og þá bregður svo við að flokkurinn er dreginn upp úr skítnum af stóra bróður í ríkisstjórninni, hlaðið á hann bitlingum og einasti borgarfulltrúi flokksins gerður að forseta borgarráðs. Þetta eru skrýtin verðlaun.

Þegar tilkynnt var um myndun nýs meirihluta í borgarstjórn á stéttinni framan við hús Vilhjálms Þ. Vilhjálmssonar í Hræfuglahólum (Máshólum) voru þeir saman í mynd og Vilhjálmur var enn með sitt frosna bros sem var sem límt á hann í Kastljósi sjónvarpsins á sunnudagskvöldið. Björn Ingi lét svo ummælt að þetta yrði borgarstjórn sem myndi iðka framkvæmdastjórnmál, þ.e. framkvæma fyrst og spyrja svo, en þetta hefur Björn Ingi væntanlega lært af stuðningi sínum við innrásina í Írak þar sem innrásarherinn stundar enn að skjóta fyrst og spyrja svo.

Ég vona að núverandi borgarstjórnarmeirihluti taki manngildið framyfir auðgildið, en ég treysti því enganveginn. Ég studdi R-listann allt frá þeim degi er ég flutti til Íslands fyrir réttum áratug síðan og með honum Alfreð Þorsteinsson og Sigrúnu Magnúsdóttur og síðar Önnu Kristinsdóttur borgarfulltrúa Framsóknarflokksins í góðu samstarfi R-listans. Allan þennan tíma leit ég á sjálfa mig sem stuðningsmanneskju fjölflokkastjórnar Reykjavíkur og var sjálf óflokksbundin. Nú er þessu tímabili lokið og ég mun senn skrá mig formlega í stjórnmálaflokk sem ekki er í meirihluta í Reykjavík. Þetta er mér nauðsynlegt starfs míns vegna og skoðana minna vegna, bæði hvað snertir manngildi og friðarbaráttuna.

-----oOo-----

Stundum ratast kjöftugum satt orð á munn, en Ólafur F. Magnússon var hálfkjökrandi er hann fékk ekki að skríða upp í sæng Vilhjálms og lét þá eftirfarandi orð falla: “Svo koma menn út úr skápnum og búnir að trúlofa sig.” Þetta skil ég mjög vel, enda hefur löngum verið haft að orði að lík börn leika best. Ólafur var óþægur Sjálfstæðismaður, en Björn Ingi er þægur Sjálfstæðismaður.


0 ummæli:Skrifa ummæli