mánudagur, maí 22, 2006

22. maí 2006 - Vetrarveður

Góð vinkona mín og áhugamanneskja um ættfræði er bóndi á norðurausturlandi með myndarlegan fjárbúskap. Nú er sauðburður í algleymingi hjá henni, manni hennar og börnum sem ætti að vera hið besta mál fyrir bændur sem lifa af því sem jörðin gefur. Það er hinsvegar erfitt að standa í sauðburði þessa dagana, allt á kafi í snjó og hið versta vorhret. Ég hefi aðeins fengið að fylgjast með vorverkunum í gegnum netið og þótt þessi ágæta fjölskylda kveinki sér ekki, þá hún allan minn andlega stuðning í von um að senn verði betri tíð með blóm í haga.

-----oOo-----

Það hafa borist fréttir þess efnis að njósnað hafi verið um íslenska vinstrimenn með símahlerunum á árunum 1949-1968. Þetta hefur mér aldrei fundist vera frétt. Ég minnist þess er ég starfaði fyrir Samtök herstöðvaandstæðinga á áttunda áratugnum, að það ekki hægt að tala viðkvæm símtöl í síma samtakanna, vitandi það að síminn var hleraður. Það heyrðist iðulega að ekki var allt með felldu þegar símtölum sem voru hleruð sló saman, þannig að komið var inn á hin samtölin. Það voru iðulega símtöl ýmissa vinstrisinnaðra aðila sem þóttu hættulegir að mati skósveina Bandaríkjastjórnar. Þetta þótti einfaldlega ekkert merkilegt vitandi það að símarnir voru hleraðir alla daga, þó án dómsúrskurðar. Við vissum jafnvel um staðsetningu hlerunarbúnaðar í kjallara lögreglustöðvarinnar við Hverfisgötu auk þess sem við töldum okkur vita að Upplýsingaþjónusta Bandaríkjanna væri ekki annað en opinber framhlið viðamikillar njósnastarfsemi Bandaríkjanna gagnvart íslenskum vinstrisinnum.

-----oOo-----

Þær fregnir hafa borist um heimsbyggðina að til standi að selja Eið Smára Guðjohnsen varamann ensk-rússneska fótboltafélagsins Seltjarnar mansali frá liðinu og hefur heyrst að Sameinaðir Mannshestar vilji kaupa gripinn, þó væntanlega að því tilskyldu að kappinn sé vel tenntur og hæfur til reiðar og að reiðtygin fylgi í kaupunum. Þetta finnst mér hið besta mál. Enn betra væri ef Sameining Mannshestanna fengi kappann fyrir lítinn pening því þá vantar góðan fyrirliða til að stjórna áframhaldandi sigurgöngu liðsins upp eftir brattanum og á toppinn.
Eitt er víst, að ef Eiður gengi til liðs við, hvort heldur er Sameinaða eða Sameininguna myndu hluthafarnir á Íslandi fagna ákaft.

Ég hefi aldrei getað skilið, af hverju mér hefur alltaf þótt örlítið vænt um Sameinaða Mannshesta. Varla er það vegna þess að ég á fjölda nákominna ættingja sem búa allt umhverfis Mannshestaborg og þá helst í nágrenni Halifaxhrepps. Af einhverjum ástæðum vilja þeir ekki deila áhuga mínum á Halifaxhreppi og halda áfram að halda með gamla liðinu sínu.


0 ummæli:







Skrifa ummæli