sunnudagur, maí 21, 2006

21. maí 2006 - Til hamingju Finnland


Ég er mjög sátt við úrslitin í Júróvisjón þetta árið. Þótt þetta þungarokkslag sé langt frá því að vera meðal bestu eða skemmtilegustu þungarokkslaga sem ég hefi heyrt, þá áttu krakkarnir í Lordi skilið að fá smáumbun fyrir að bera þessa búninga dag eftir dag og kvöld eftir kvöld í sumarhitunum í Grikklandi.

Ég er ekki síður ánægð með að framlag Svíþjóðar lenti aðeins í fimmta sæti. Þrátt fyrir dálæti mitt á sænsku þjóðinni, þá er álit mitt á Carólu Häggkvist ekki jafnmikið og almennt á sænsku þjóðinni. Satt best að segja legg ég hana að jöfnu við annað trúarofstækisfólk og gildir þá einu hvort eiga í hlut Osama bin Laden, George Dobbljú Bush, Ulf Ekman eða Gunnar Þorsteinsson. Því var ég fegin því að Caróla lenti ekki ofar en raun bar vitni.

-----oOo-----

Ég gekk á Helgafellið ofan Hafnarfjarðar á laugardaginn. Þar sem ferðafélaginn þaut á milli steina eins og fiðrildi, skreiddist ég á eftir með öll aukakílóin í farteskinu í kulda og trekk og bölvaði sjálfri mér fyrir yfirþyngdina. Í gegnum huga minn fór gömul minning frá því er ég vann í orkuverinu í Hässelby í Stokkhólmi. Þar eru tveir skorsteinar 145 metra háir og í öðrum þeirra var hringstigi inni í skorsteinshúsinu alla leið upp í topp þar sem var fyrirtaks útsýnispallur allt umhverfis skorsteinstoppinn.

Stöku sinnum kom fyrir að utanaðkomandi fólk óskaði þess að fá að komast upp á topp skorsteinsins, en slíkt var aldrei samþykkt nema að einhver vakthafandi vélfræðingur fylgdi með upp skorsteininn. Eitt sinn fékk ljósmyndari einn leyfi til að fara upp og það lenti á mér fylgja honum upp. Þegar ég var komin rúmlega hálfa leiðina upp og blásandi af mæði eins og fýsibelgur, var ljósmyndarinn kominn upp allar 730 tröppurnar upp á topp og byrjaður að mynda. Það stóð á endum að þegar ég náði toppnum var hann búinn að ljúka verkefni sínu og tilbúinn að hlaupa niður aftur. Þvílíkt þol!

Þrátt fyrir þessar hugsanir mínar hélt ég áfram upp brattasta hjallann á fjallinu og rétt í þann mund sem þeim hjalla var lokið, mættum við hóp barna sem höfðu haldið upp á sjö ára afmæli eins þeirra á toppnum og voru nú í fylgd mæðra sinna á leið heim eftir hressilega fjallgöngu. Það var samt haldið áfram og móð og másandi náði ég toppnum og fagnaði ákaft miklum sigri á “erfiðu” fjallinu.

-----oOo-----

Til hamingju Halifaxhreppur. Á laugardaginn var loksins haldinn æsispennandi úrslitaleikur á milli Halifaxhrepps og Hérafordarnautanna um sæti í langneðstu deild. Eftir venjulegan leiktíma var jafnt á milli liða sem höfðu hvort um sig skorað tvö mörk. Reyndar misstu hetjurnar okkar af víti, en dómarinn sá ekki þegar eitt Hérafordarnautið sló boltann frá markinu með annarri framklaufinni. Í síðari hluta framlengingar skoraði eitt nautið afar ljótt mark og þannig endaði leikurinn að Nautin unnu leikinn og munu verða langneðst í langneðstu deild í haust, en hetjurnar okkar munu halda áfram að vera langbest í kvenfélagsdeildinni.


0 ummæli:







Skrifa ummæli