mánudagur, maí 08, 2006

8. maí 2006 - Fatlaðir Framsóknarmenn


Ég minnist þess er ég skrapp í verslun okkar allra, Heiðrúnu, að kaupa mér kippu af bjór fyrir einu eða tveimur árum síðan. Er ég kom gangandi að húsinu neðan frá bílastæðunum kom maður á slyddujeppa og lagði fimlega í stæði fyrir fatlaða við innganginn. Ég sá ekkert merki fatlaðra í framrúðu bílsins. Í krafti samvisku minnar þess efnis að bílastæði fyrir fatlaða væru einungis fyrir fatlaða, reyndi ég að drepa vesalings ökumanninn með augnaráðinu um leið og ég benti honum á skilti þess efnis að þetta væri bílastæði fyrir fatlaða. Ökumaðurinn lét sér þó ekki segjast við þetta heldur dró upp hækju úr farþegasætinu og sýndi mér. Ég hætti við að ræða við hann frekar undir fjögur augu, flýtti mér inn í húsið og lét fara lítið fyrir mér.

Þessi saga flaug í gegnum huga mér er ég las blogg Hildigunnar í dag. Þar er mynd af stríðsjeppa Framsóknarflokksins þar sem honum hefur verið lagt í bílastæði fyrir fatlaða og leyfi ég mér að ræna myndinni án heimildar og birta hér einnig. Í framhaldi myndbirtingarinnar spyr ég mig þess hvort það sé satt að Framsóknarmenn (nema auðvitað Alfreð) séu fatlaðir í eðli sínu?

Eins og allir vita sem lesa bloggið mitt, er ég hinn versti reglugerðarpúki þegar kemur að umferðinni og minn vinstrigræni eðalvagn neitar að láta sjá sig í bílastæði fatlaðra, enda er ég ekkert fatlafól, fullfrísk manneskjan. Spyrjið bara Þórð!

-----oOo-----

Ég hefi góðar fréttir handa Þórði þar sem hann er fjarri menningunni á bát yfirfullum af syngjandi, jarmandi og mjálmandi farmi úti fyrir ströndum Suður-Evrópu. Uppáhaldsökumanni Þórðar, þeim ískalda en syfjaða Kimi tókst nefnilega með miklu harðfylgi, að næla sér í fjórða sætið í Formúlu saumavél. Hitt þykir víst ekki fréttnæmt, að hinn geðþekki heimsmethafi bætti tvö heimsmeta sinna og verða þau víst seint slegin úr þessu, en hann bætti tíu stigum við fjölda áunnina stiga sinna sem nú teljast vera 1279, en einnig náði hann að vinna sinn 86. mótssigur. Þess á geta að Alain Prost er í öðru sæti áunnina stiga með 798,5 stig. Alain Prost á einnig 2. sætið í fjölda mótssigra eða 51. Umræddur Kimi hefur unnið níu mótssigra og hlotið 299 stig.

Nú hefi ég komist að því að heimsmethafinn geðþekki svindlaði sér inn í Formúluna á sínum tíma. Þegar Eddie Jordan vantaði ökumann til að aka keppnina í Spa í Belgíu árið 1991 og spurði Michael Schumacher hvaða reynslu hann hefði á Spa, laug Michael því til að hann hefði mikla reynslu af Spa brautinni. Reyndin var sú að hann hafði aðeins einu sinni ekið þessa braut áður, á reiðhjóli.


0 ummæli:Skrifa ummæli